Grætur dvöl fólks á sóttkvíarhóteli þurrum tárum

Mynd: RÚV / RÚV
Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, segir að hin umdeildu sóttkvíarhótel sé vissulega illnauðsynleg en fólk sem líki dvölinni á hótelinu við fangelsisvist sé ekki í tengslum við raunveruleika þeirra sem hafi þurft að sitja í fangelsi. Hann gráti frelsissviptingu þeirra sem þurfi að verja fimm dögum á lúxushóteli þurrum tárum.

Davíð Þór var gestur Vikulokanna ásamt sjónvarpskonunni Sirrý Arnardóttur og Maríu Elísabetu Bragadóttur, rithöfundi. 

Til umræðu var meðal annars hið umdeilda sóttkvíarhótel. Þangað þarf fólk að fara sem kemur frá skilgreindum áhættusvæðum og vera í sóttkví milli fyrri og seinni skimunar.

Davíð sagði þetta nokkuð klippt og skorið í sínum huga og líkti þessu við þegar maður fengi gest heim til sín. „Ef ég býð þér heim til mín og bið þig um að fara úr skónum þá á ég alveg rétt á því. Þetta er mitt gólf og það er ég sem þarf að þrífa það en gesturinn hefur sama rétt að snúa við í forstofunni.“

Davíð nefndi að móðir hans væri orðin öldruð og með undirliggjandi sjúkdóma. „Ef einhver þarf að vera á lúxushóteli í fimm daga til þess að varna því að smita hana af einhverju sem gæti orðið henni að aldurtila þá grét ég þá frelsissviptingu þurrum tárum.“

Sirrý benti á að margir virtust hafa afbókað ferð sína til Íslands eftir að nýju reglurnar tóku gildi. Það benti til þess að einhverjir ferðamenn hefðu sennilega aldrei ætlað að virða reglur um sóttkví. Það hefði til að mynda verið hræðilegt að missa slíkt fólk inn á gosstöðvarnar í Geldingadölum þar sem margir halda utan um sama kaðal til að komast upp erfiða brekku á leið sinn inn að eldgosinu. 

Hún nefndi þó mál íþróttafréttakonu sem byggi í þriggja kílómetra fjarlægð frá sóttkvíarhótelinu en mætti ekki vera heima hjá sér heldur þyrfti að vera inni í lokuðu herbergi. „Það er ekkert svart og hvítt en við verðum að stoppa að ferðamenn valsi hér um og fari ekki í sóttkví.“

María Elísabet sagðist ekki hafa neina svart/hvíta skoðun. Þetta væri allt svo skrýtið og nýtt. Fimm dagar á sóttkvíarhóteli væru til að mynda ekkert mikið miðað við það sem vinkona hennar í Edinborg hefði mátt þola.  „Það er mikilvægt að það sé umræða um þetta. Það væri óhugnanlegt ef öllum fyndist þetta bara sjálfsagt.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV