Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldhugarnir sem hristu upp í hlutunum

Mynd með færslu
 Mynd: KrakkaRÚV

Eldhugarnir sem hristu upp í hlutunum

03.04.2021 - 09:00

Höfundar

„Það eru mörg nöfn þarna sem ég hafði aldrei heyrt um. Sem sýnir hvað þetta er mikilvægt,“ segir Sigríður Eyrún Friðriksdóttir leikkona og sögumaður í nýrri franskri teiknimyndaþáttaröð um konur sem hafa sett mark sitt á heiminn.

Þættirnir bera heitið Eldhugar, á ensku „Brazen; rebel ladies that rocked the world“. Þeir fjalla um 30 konur, raunverulega áhrifavalda sem markað hafa djúp spor í mannkynssöguna. Hver þáttur er tileinkaður einni konu og afrekum hennar. Meðal þeirra sem fjallað er um eru Tove Janson, Josephine Baker, Frances Glessner Lee, Margaret Hamilton og Nzinga. Þættirnir unnu til hinna virtu Eisner-verðlauna 2019 en þau þykja sambærileg Óskarnum í heimi teiknimyndasagna.

„Síðasta hálfa áratuginn eða svo hefur geisað löngu tímabær og mjög þörf tískubylgja í bæði bókaútgáfu og ýmsu sjónvarpsefni – sögur úr fortíðinni eru endursagðar af sjónarhóli kvenna (sem áður voru oft ósýnilegar) eða þá að gleymdar konur eru dregnar fram í sviðsljósið eða saga þekktra kvenna er sögð í nýju og hetjulegra ljósi,“ segir Sverrir Norland þýðandi þáttanna. Hann segir þættina mikla fjársjóðskistu og fagnar því að þeim verði gerð skil í íslensku sjónvarpi.

Sverrir vinnur nú einnig að þýðingu á samnefndri myndasögu sem Eldhugar byggist á eftir franska myndasagnahöfundinn Pénélope Bagieu. Hann segir hana það eftirtektarverðasta í þeim fjölda bóka sem fjalla um sögu kvenna á þennan hátt. „Ég er einmitt að þýða hana um þessar mundir, sem er mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Það er ekki annað hægt en að heillast af frásagnarhæfileikum Bagiue í Eldhugum. Þar rekur hún á snilldarlegan hátt æviskeið þrjátíu kvenna á knappan en um leið ótrúlega næman og ríkan hátt, þannig að hver einasta kona verður lesandanum afar nákomin og eftirminnileg.“ 

Þekktu fáar kvennanna

Sverrir segist ekki hafa þekkt nema lítið brot þeirra kvenna sem fjallað er um í Eldhugum. „Tove Jansson þekkti ég vel – í sérstöku uppáhaldi hjá mér – en svo kannaðist ég kannski við fjórar fimm aðrar en það var varla mikið meira en nafnið. Betty Davis, Petty Guggenheim, Margaret Hamilton, sem lék vondu nornina í Galdrakarlinum í Oz. Stutta svarið er því: þekkti næstum enga þeirra.“

Þættirnir verða talsettir á íslensku og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir leikkona er rödd þáttanna. Hún segist einnig hafa þekkt fá nöfn á listanum en það sýni einmitt mikilvægi þáttanna. „Ég verð alltaf mjög spennt þegar ég er beðin um að lesa inn og leika í efni sem er svona vandað. Konur hafa oft gleymst í mannkynssögunni og það er svo mikilvægt, fyrir stelpur og stráka, að sjá svona flottar fyrirmyndir í barnaefni. Ég er þakklát fyrir að fá að taka þátt í því. Ég spila mikið Trivial og önnur spurningaspil og tel mig vera ansi góða í almennri þekkingu. Hins vegar voru ansi mörg nöfn þarna sem ég hafði aldrei heyrt um. Sem sýnir hvað þetta er mikilvægt.“

Fyrsti þáttur Eldhuga verður frumsýndur að morgni páskadags þar sem fjallað verður um Josephine Baker.