Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eldgosið himnasending fyrir unga frumkvöðla

03.04.2021 - 21:21
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Eldgosið í Geldingadölum var eins og himnasending fyrir frumkvöðlaverkefni sem 6 stúlkur í Verzlunarskóla Íslands standa að. Kubbar sem þær útbúa úr íslensku hrauni minna á kvikustreymi í iðrum jarðar.

Um 200  framhaldsskólanemendur í Verzlunarskóla Íslands eru í frumkvöðlafræðiáfanga við skólann. Meðal verkefna sem hafa sprottið út úr áfanganum er Hrauney, reykelsisstandur úr hrauni sem 6 stúlkur standa að. Verkefnið hefur staðið yfir frá því í janúar. 

„Hugmyndavinnan byrjaði þar. Við vorum að tala um að okkur langaði að gera einhvern reykelsisstand úr íslenskum hráefnum. Pabbi einnar stelpunnar vinnur hjá Steinkompaníinu. Við pitsuðum þessu til hans og hann var ótrúlega ánægður með þetta,“ segir Anna Alexandra Petersen, fjármálastjóri Hrauneyjar.

Framtíðarverkefni

„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að gera með hinum og þessum krökkum sem fá einhverjar hugmyndir. Einhverjir hópar hafa komið úr Verzlunarskólanum og eins úr Listaháskólanum. Ef okkur líst vel á hugmyndina þá tökum við þátt í þessu með þeim. Við lítum þannig á að þó að þá að það kemur ekki eitthvað út úr öllum verkefnum, en það kemur út úr sumum verkefnum, og þá er það vinna fyrir okkur í framtíðinni,“ segir Þór Sigmmundsson, steinsmiður. 

Steinkubbarnir eru sagaðir úr basalthrauni sem á rætur að rekja í Ölfusið. 

„Þetta er nú ekkert langt frá því sem hlutirnir eru að gerast í dag. Við fáum þetta í stórum steinum, svona 7-8 tonna steinum. Svo byrjum við að saga þetta niður þar til þetta er komið í svona minni einingar,“ segir Þór.

Væri draumur að nota hraun úr Geldingadölum

Verkefnið hefur hlotið byr undir báða vængi eftir að eldgosið í Geldingadölum hófst.

„Hugmyndin okkar var upprunalega að mynda hugrenningartengsl við heitt hraun með því að setja reykelsi undir kubbinn og gefa storknuðu hrauni þannig líf aftur. Við sögðum að reykelsið væri að líkja eftir hraunkviku í iðrum jarðar og segja ákveðna sögu um myndun íslenska landslagsins. Síðan akkúrat kom þetta gos sem er nákvæmlega það sem við erum að tala um og líkja eftir,“ segir María Valgarðsdóttir, hönnunarstjóri Hrauneyjar.

„Þetta hjálpaði ótrúlega við markaðssetningu. Við drifum okkur strax upp í Geldingadali á sunnudaginn eftir gosið og fórum að mynda auglýsingar,“ segir Anna Alexandra.

Þó svo að kubbarnir séu enn sem komið er framleiddir úr eldra hrauni stendur vilji stúlknanna til að nota hið spánnýja, ónefnda hraun í Geldingadölum til framleiðslunnar.

„Það væri geggjað, kannski að leyfa því að kólna fyrst en það væri draumurinn,“ segir María að lokum.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV