Allt sem nauðsynlegt er að vita um kynfærin

Mynd: Pinterest / Pinterest

Allt sem nauðsynlegt er að vita um kynfærin

03.04.2021 - 10:20

Höfundar

Í 10. þætti Klukkan sex fjalla Indíana Rós kynfræðingur og Mikael Emil um kynfæri. Þau stikla á stóru um virkni kynfæra, gera til að mynda tilraun til að útskýra tíðahringinn og sáðlát ásamt því að velta fyrir sér hvernig sæði bragðast.

Við fæðumst öll með kynfæri en því miður fá ekki öll fræðslu um þau og ýmislegt þeim tengt. Indíana Rós kynfræðingur og Mikael Emil fjölluðu um kynfæri í hlaðvarpinu Klukkan sex. Mikilvægt er að muna að kynfæri segja ekki til um kyn fólks, þó það tíðkist í samfélaginu að ákvarða kyn barna og fullorðinna út frá kynfærum þeirra við fæðingu. Ef kynvitund fólks samræmist ekki því kyni sem það fékk úthlutað við fæðingu er það trans. 

Fólk sem fæðist með leg og eggjastokka hefur egglos reglulega, um það bil mánaðarlega. Egglos og blæðingar hefjast við kynþroska en fólk skilur ekki endilega hvað á sér stað í líkamanum. Þá er fólk sem fæðist með typpi og eistu sífellt að framleiða sáðfrumur og sáðvökva en veit það kannski ekki.

„Fræðsla um kynfærin og virkni þeirra getur verið valdeflandi því þá skilur fólk betur líkamann sinn, og getur hjálpað fólki að taka ákvarðanir um líkamann sinn, til að mynda hvaða getnaðarvarnir þau vilja nota,“ segir Indíana.

Fólk með leg og eggjastokka hefur egglos um það bil mánaðarlega. Það veltur svo allt á því hvort sæði kemur nærri egginu á þeim tíma sem egglos á sér stað, hvort það verði getnaður, og þá hvort blæðingar hefjast. Að missa úr blæðingar er eitt helsta einkenni þess að vera barnshafandi. Frjóvað egg, þar sem sæði og egg hafa sameinast og byrja að fjölga sér, grefur sig inn í legið og líkaminn sendir leginu þau skilaboð að fara ekki á blæðingar. 

Ólíkt eggastokkunum, þar sem öll eggin eru tilbúin strax við fæðingu, er sáðfrumuframleiðsla í eistunum að því er virðist endalaust. Eistun framleiða nokkrar milljónir sáðfruma á hverjum degi. Sáðvökvi kemur úr blöðurhálskirtli, sáðblöðru og reðurklumbukirtli og blandast við sáðfrumurnar í sáðrásinni og er þá orðinn að því sem við köllum sæði. Sáðvökvinn hefur það mikilvæga hlutverk að næra sáðfrumurnar og búa til betra umhverfi fyrir þær á ferðalaginu úr sáðrásinni, gegnum þvagrásina og í leggöngin, leghálsinn og legið ef sæðið endar þar.

Ekki eru þó öll sem fæðast með hefðbundin kyneinkenni. Fjölbreytileiki getur myndast þegar kynfærin eru að þroskast þegar við erum enn í móðurkviði. Intersex er hugtak sem nær yfir fólk með óhefðbundin kyneinkenni. Þessi breytileiki getur verið í útliti ytri kynfæra eða hormónaframleiðslu okkar. Oft er intersex fólk ekki meðvitað um að það er intersex fyrr en frjósemi er athuguð, til dæmis þegar fólk reynir að eignast barn og það tekst ekki. „Talið er 1,7% alls fólks í heiminum sé intersex og er það því jafn algengt og fæðast rauðhærður,“ bætir Indíana við. 

Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber ræddu um kynfæri í Klukkan sex. Þátturinn er aðgengilegur á Ungrúv.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Brot úr þættinum má hlusta á í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Stefnumótamenning- forritin hjálpa í heimsfaraldri

Mannlíf

Fantasíur eru góð leið til að halda þér við efnið

Mannlíf

Getnaðarvarnir veita kynfrelsi