Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vísbendingar um að Eþíópíuher sé sekur um fjöldamorð

02.04.2021 - 02:56
epa08844224 (FILE) The Ethiopian National Defence conducts exercises in the inaugural event of Sheger park during a military parade in Addis Ababa, Ethiopia 10 September 2020 (issued 26 November 2020). The prime minister of Ethiopia Abiy Ahmed, on 26 November 2020. ordered the army to move on the embattled Tigray regional capital after a 72 hour ultimatum to surrender had expired. Ethiopia?s military intervention comes after Tigray People's Liberation Front forces allegedly attacked an army base on 03 November 2020 sparking three weeks of unrest.  EPA-EFE/STR
Hermenn Eþíópíuhers sýna bryndreka sína á hersýningu í höfuðborginni Addis Abeba Mynd: epa
Sterkar vísbendingar hafa fundist um að liðsmenn Eþíópíuhers hafi framið fjöldamorð í Tigray-héraði í janúar á þessu ári. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá og byggir frétt sína á eigin rannsóknum. Þær leiddu í ljós að minnst 15 menn voru drepnir í þessu ódæðisverki, en mun fleiri er saknað.

Í frétt BBC segir að á fimm myndskeiðum sem birt voru á samfélagsmiðlum í mars hafi mátt sjá vopnaða menn í einkennisbúningi Eþíópíuhers leiða hóp óvopnaðra manna fram á klettabrún, skjóta suma þeirra af stuttu færi og kasta líkunum fyrir björg.

Fréttamenn BBC telja sig hafa staðfest áreiðanleika myndskeiðanna og að þau sýni að morðin hafi verið framn nærri bænum Mahbere Dego í Tigray-héraði í norðanverðri Eþíópíu, þar sem Eþíópíuher hefur átt í blóðugum átökum við vopnaðar sveitir Þjóðfrelsisfylkingar Tigray-héraðs síðan í nóvember. Þá hóf Eþíópíuher hernaðaraðgerðir gegn Þjóðfrelsisfylkingunni, sem forsætisráðherrann og friðarverðlaunahafinn Abiy Ahmed sagði standa að baki árás á bækistöð hersins í héraðinu.

Um tvær milljónir Tigray-búa hafa hrakist á flótta síðan bardagar hófust og tvöfalt fleiri þurfa að treysta á utanaðkomandi neyðaraðstoð til að draga fram lífið.