Stuðkompaníið stofnað til að græða pening

Mynd: atliorvarsson.com / atliorvarsson.com

Stuðkompaníið stofnað til að græða pening

02.04.2021 - 07:12

Höfundar

Um tíma var Stuðkompaníið ein vinsælasta hljómsveit landsins. Atli Örvarsson, einn liðsmanna sveitarinnar, segir að hún hafi þó fyrst og fremst verið stofnuð í þeim tilgangi að græða smá pening. Sköpunargleði liðsmanna hafi svo orðið til þess að hljómsveitin hætti að spila á böllum og fór að semja eigin tónlist.

Íslensk tónskáld hafa gert góða hluti á alþjóðlegum vettvangi kvikmynda og sjónvarpsþátta undanfarið. Síðustu 10-15 ár höfum við reglulega heyrt fréttir af sigrum Íslendinga á þessu sviði. Það er íslensk tónlist í hverri stórmyndinni, sjónvarpsþættinum ogjafnvel tölvuleiknum á fætur öðrum. Eitt þessara tónskálda er Akureyringurinn Atli Örvarsson sem er nú aftur fluttur heim eftir langa búsetu í Los Angeles. 

Atli á að baki langan og merkilegan feril sem spannar allt frá orgelinu í Akureyrarkirkju, sveitaballtónlist með Stuðkompaníinu, rokkinu með SSSól og Sálinni og til Hollywood-myndvera í Los Angeles. Í þættinum Frá L.A. til Akureyrar ræðir Vignir Egill Vigfússon við Atla um ferilinn. 

Atli kemur úr ansi stórri tónlistarfjölskyldu og tók sín fyrstu skref í tónlist ungur að árum. „Afi minn heitinn sá eitthvað í mér og hafði tilfinningu fyrir því að ég væri mögulega með einhverja tónlistargáfu og fór með mig í heimsókn til Áskels Jónssonar, frænda míns, sem var kórstjóri og organisti hér á Akureyri. Það var fastmælum bundið að Áskell ætlaði að reyna að kenna mér eitthvað á píanó eða orgel. Ég held að ég hafi verið fimm ára. Sagan segir að morgunin eftir hafi ég bankað upp á hjá Áskeli klukkan 10 og rukkað hann um þessa kennslustund við orgelið.”

Atli fór í tónlistarskóla í kjölfarið og var í honum fram á unglingsár þar sem hann spilaði mest á trompet. Atli þakkar fyrir að vera frá litlum bæ þar sem hann fékk tækifæri á að spila með mörgum hljómsveitum óháð tónlistarstefnum. Þegar Atli var 13 ára fékk hann stöðu hjá leikhúshljómsveitinni þegar Leikfélag Akureyrar setti upp My Fair Lady. „Maður fékk ofboðslega víðfemt og gott tónlistaruppeldi og fékk að spila allskonar tónlist við allskonar tækifæri, orðinn atvinnumaður í því síðan ég var 13 ára gamall,” segir Atli sem segist nánast ekki hafa unnið annað um ævina. 

Fljótlega varð Atli poppinu að bráð, eða svo sögðu tónlistarkennarar hans þegar hann byrjaði að hlusta meira á popptónlist og eftir að hafa verið í nokkrum bílskúrshljómsveitum vantaði Atla og félaga pening og lausnin var að stofna nýja hljómsveit. „Stuðkompaníið kom aðallega til því okkur vantaði alla pening þannig að við ákváðum að fara að spila á sveitaböllum í kring til að afla okkur tekna.” Hljómsveitin þróaðist úr því að vera gömludansa/sveitaballahljómsveit yfir í að semja sín eigin lög. „Síðan var ákveðið að taka þátt í Músíktilraunum árið 1987 sem gekk svo vel að við sigruðum þær og þá var teningnum kastað.” 

Hljómsveitin fékk strax plötusamning eftir sigurinn í Músíktilraunum og gaf út plötu strax næsta sumar. „Úrslit Músíktilrauna voru í páskafríinu, ég var í Menntaskólanum á Akureyri á þessum tíma, og ég kom til baka og var orðinn poppstjarna eftir páskana,” segir hann. Lög með hljómsveitinni slógu í gegn í útvarpinu og hún spilaði út um víðan völl í kjölfarið. „Maður er bara krakki og veit ekki alveg hvað er að gerast en við nutum þess mjög mikið og þetta var mjög skemmtilegt.” Hann dró sig svo út úr hljómsveitinni þar sem hann valdi að klára frekar námið. Tónleikalífið og námið hafi ekki farið vel saman. 

Nánar er rætt við Atla í þættinum Frá L.A. til Akureyrar sem er á dagskrá Rásar 2 föstudaginn langa kl. 15.

Tengdar fréttir

Tónlist

Atli Örvars snýr við blaðinu og gerir tónlist fyrir sig