Stormur næstu tvo daga

02.04.2021 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna óveðurs sem gengur yfir landið á morgun og páskadag. Útlit er fyrir suðvestanhvassviðri eða storm á Norðurlandi á morgun. Einkum er útlit fyrir vont veður á Tröllaskaga og í Skagafirði og Eyjafirði. Suðvestanstormi er líka spáð á gosstöðvunum á morgun og verður lokað fyrir umferð að þeim allan daginn.

Veðrið er misskipt um páskahelgina. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út á Faxaflóasvæðinu, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra á morgun. Á sunnudag eru svo í gildi viðvaranir á Austurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi vegna norðanhvassviðris og storms eða jafnvel roks.

Allt að 45 metrar á sekúndu í hviðum

Norðlendingar mega búa sig undir suðvestanhvassviðri eða storm á morgun, einkum við Tröllaskaga, í Skagafirði, þar sem vindur getur farið í 35 metra á sekúndu í hviðum, og við vestanverðan Eyjafjörð, þar sem vindur getur farið í 35 til 45 metra á sekúndu. Ekkert ferðaveður verður við gosstöðvarnar í Geldingadölum; stormur, rigning eða súld og lélegt skyggni. Veðurstofan vekur jafnframt athygli á að það snýst í norðanátt með hríðarveðri og hálku á norðanverðu landinu seint á morgun, fyrst á Vestfjörðum og Ströndum. Færð versnar þar annað kvöld, ekki síst á fjallvegum og eru ferðalangar því hvattir til að haga ferðum sínum eftir því.

Á sunnudag gengur norðvestanhríð yfir Austurland að Glettingi og Austfirði. Vindur fer í allt að 45 metra á sekúndu í hviðum á Austfjörðum á sunnudagskvöld. Skyggni verður lítið og akstursskilyrði erfið.

Nýjustu upplýsingar um viðvaranir má sjá á vef Veðurstofunnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV