Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstöðunni spáð sigri á Grænlandi

02.04.2021 - 21:48
Myndir af Múte B. Egede, leiðtoga Inuit Ataqatigiit flokksins á Grænlandi.
 Mynd: Inuit Ataqatigiit
Helsta stjórnarandstöðuflokknum á Grænlandi er spáð verulegri fylgisaukningu í könnun sem birt var í kvöld í dagblaðinu Sermitsiaq. Grænlendingar kjósa bæði til sveitastjórna og þings á þriðjudaginn.

Rúmlega 36 prósent grænlenskra kjósenda styðja Inuit Ataqatigiit  eða IA, sem er lengst til vinstri á Inatsisartut, grænlenska þinginu. Þar er 31 þingmaður og ef úrslit verða í samræmi við könnunina fær IA 12 þingsæti, en hefur nú 8. Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut sem farið hefur með stjórnarforystu á Grænlandi síðustu 7 ár missir eitt sæti á þingi samkvæmt könnuninni.

Horfur á nýr maður taki við stjórnarforystu

Múte B. Egede, nýr formaður IA, gæti því orðið næsti formaður landsstjórnar Grænlands eða forsætisráðherra. Það yrði aðeins í annað sinn frá því Grænlendingar fengu heimastjórn 1978 að IA veitti landsstjórninni forystu. Kupiik Kleist var formaður landsstjórnarinnar frá 2009 til 2013.

Kannanir spáðu rangt 2014 og 2018

Í frétt á vef grænlenska ríkisútvarpsins í kvöld er þó bent á að IA hafi einnig verið spáð sigri fyrir kosningarnar 2014 og 2018, en Siumut fengið flest atkvæði í bæði skiptin. Munurinn nú er þó meiri, 13 prósentustig skilja flokkana að.