Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stefnumótaforrit sem lofar eilífri ást

Mynd: Netflix / Netflix

Stefnumótaforrit sem lofar eilífri ást

02.04.2021 - 13:00

Höfundar

„Eins og margar ástarsögur fá mann til að trúa á eina sanna ást, þvert á raunsæislega afstöðu til tilverunnar, þá gera The One hið gagnstæða og fylla mann heldur bölsýni og einlægu þakklæti yfir að slíkt sé bara til í ævintýrum,“ segir Júlía Margrét Einarsdóttir gagnrýnandi lestarinnar um The One á Netflix.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Kjarninn í flestum klassískum ástarsögum hin logandi og stundum ósvalaða ástarþrá og þær byggjast gjarnan á hugmyndinni um hina einu sönnu ást sem fær öll önnur möguleg sambönd til að fölna í samanburði, hvort sem elskendur lifa hamingjusamlega til æviloka, deyja úr ást eða lifa í áframhaldandi angist. Til að hreyfa við lesenda eða áhorfanda er mikilvægt að geta sannfært viðkomandi um að allavega í heimi sögunnar sé enginn annar hinn eini eða sú eina rétta og að það komi enginn annar til greina nokkurn tímann, eins og í tilfelli að minnsta kosti einhverra mörgæsategunda. Það er hins vegar staðreynd sem ég leyfi mér að trúa að flestir hafi efasemdir um á fullorðinsárum þó það virðist alveg rökrétt þegar maður sem unglingur veggfóðrar herbergið með myndum af Hollywood-stjörnunni sem maður þráir eina (í mínu tilfelli Ewan McGregor).

Mögulegir heimar og mögulegir makar

Seinna meir fær ástin aðra, kannski heilbrigðari en að minnsta kosti jarðbundnari merkingu. Tíminn á jörðinni kennir okkur flestum að jafnvel þeir sem eru hæstánægðir með sínum maka alla tíð hefðu getað verið nokkuð sáttir með einhverjum allt öðrum. Svo eru sumir eru langhamingjusamastir einir og óháðir og enn aðrir eru ekki góðir í að eiga í heilbrigðu ástarsambandi og ættu bara að sleppa því, en það er önnur saga.

Ef Rómeó og Júlía hefðu bara hösslað einhvern þægilegan

Áður en lengra er haldið skal því haldið til haga að ég trúi sannarlega á frábær ástarsambönd sem endast til æviloka, foreldrar mínir eiga í einu slíku, margir vinir mínir og fjölskylda og ég á í farsælu ástarsambandi sjálf sem ég vona af öllu hjarta að það taki aldrei enda. En á meðan slíkt samband varir verður það sjaldan efniviður í sjóðheita ástarsögu, það er tíðindasnautt að hafa það gott.  Vísur Vatnsenda-Rósu eru einmitt áhrifamiklar því þær fjalla um ástarþrá sem ekki verður svalað, Ó, að við hefðum aldrei hist og svo framvegis. Ef Rómeó og Júlía hefðu áttað sig á því að það væri bölvað vesen að reyna að vera saman og ákveðið að hössla einhvern sem fjölskyldan gæti gúterað, þá væri ekki mikið fútt í sögunni. Þegar Dante kom í Paradís bíður hans ekki eiginkona hans heldur Beatrís, kona sem hann hafði ekki hitt nema í örfá skipti og aldrei þekkt en engdist um af ástarþrá allar götur síðan. Dæmin eru auðvitað endalaus.

Tinder eða Grindr með loforði um eilífa ást

Og eitt dæmi er bresku vísindatryllings-þættirnir The One úr smiðju Howards Overman sem nú eru sýndir á Netflix og byggjast á klassísku ástarsögu-hugmyndinni um hina einu sönnu ást en í þessu tilviki er hugmyndin er tekin á næsta þrep. Eins og algengt er í nútíma-vísindatryllum eru það samfélagsmiðlar sem tröllríða öllu og hér fáum við að kynnast stefnumótaforriti sem líkt og Tinder eða Grindr kemur þér í samband við mögulegan vonbiðil en tengingin eða „matchið“ byggist á vísindalegum prófunum sem gera þér kleift, með DNA tækni, að finna manneskjuna sem genablandan þín er sköpuð fyrir með loforði um ást. Að einhvers staðar í veröldinni sé sú manneskja, mögulega í allt öðrum aðstæðum, býr í öðru landi, kannski við algjöra fátækt en þú í vellystingum eða öfugt en sögunni fylgir samt loforð um að þið munið laðast að hvort öðru og fella hugi saman af meiri ákefð en þú munir geta með nokkrum öðrum. Þetta er bylting sem breytir ástarsamböndum og stefnumótakenningu til frambúðar.

Ósympatísk aðalsöguhetja

Þegar sagan hefst er aðalsögupersónan okkar, Rebecca Webb, að halda fyrirlestur um ótrúlegan mátt forritsins The One sem hún hefur skapað. Hún er í rándýrum klæðnaði enda ljóst að hún hefur orðið moldrík á forritinu sem margar milljónir manna hafa núþegar hlaðið niður til að finna sálufélagann sinn. Hún talar hægt og af innblásinni sannfæringu og kyssir meintan sálufélaga sinn ástúðlega á sviðinu að lokinni ræðu. Vilt þú ekki finna það sem ég fann? Allir eru með, hún er orðin að einni áhrifamestu manneskju heims sem andlit byltingarkennds stórfyrirtækis. Hún fer í fín kokteilboð eða þrammar um höfuðsvöðvar fyrirtækis síns, herpt á svip í þröngri dragt og háværum pinnahælum. Talar ekki við samstarfsmenn öðruvísi en að vera að ganga greitt á meðan og stara einbeitt fram fyrir sig. Okkur skal vera ljóst að hún er mikilvæg og auk þess virðist hún nokkuð kaldlynd og persónuleikalaus og þar af leiðandi ósympatísk sem er nokkur áhætta að taka með aðalsögupersónu. 

Busl í flæðarmálinu og einn óheppilegur dauði

Það verður fljótlega ljóst að leið Rebeccu til áhrifa er blóði drifin, að til að ná langt sveik hún vin sinn og sambýlismann og stal af honum leynilegum gögnum til að setja á fót fyrirtækið. Sagan verður enn skuggalegri þegar ljóst verður að sami vinur féll af húsþaki í hennar viðurvist nokkru síðar þó ekki sé ljóst hvort hann hafi látist af slysförum eða að eitthvað glæpsamlegt hafi átt sér stað. Ljóst er að Rebecca hefur margt að fela og samhliða sögunni af forritinu fléttast möguleg morðrannsókn á andláti svikna vinarins.

En það verður strax ljóst að forritið er til og það svínvirkar í raun. Við fylgjumst með því hvernig jafnvel hin kaldlynda og flata Rebecca sjálf hittir sinn eina sanna og hún hefur ekki verið í návist hans nema í nokkrar mínútur áður en þau eru farin að dansa um á ströndinni, velta sér í sandinum, borða salatið sitt hlæjandi og busla í flæðarmálinu. Þetta virðist ekki bregðast. En það að finna sálufélagann sinn virðist líka valda undarlegum og óþægilegum dómgreindarbresti sem er sögunni engan veginn til framdráttar. Þó maður hafi ekki samúð með aðalsöguhetjunni er erfitt annað en að halda með manninum sem á í farsælu og ástríku sambandi með kærustunni sinni og virðist yndislegur í alla staði, eða þar til hann hittir í fyrsta skipti óafvitandi manneskjuna sem er hans eina rétta og segir við kærustuna sína, á afmæli hennar: Vá, sjáðu, allir vinir mínir eiga eftir að bilast yfir þessu. Mjög mikil óvirðing gagnvart kærustunni og óþægileg hlutgerving og perraskapur sem hinn indæli kærasti sýnir ókunnugri konu gera hugmyndina um hann sem maka frekar vafasama.

Að kyssa manneskju í dái

Og þegar önnur stór persóna í þáttunum hittir í fyrsta skipti sálufélagann sinn er það ókunnug kona sem liggur lemstruð í dái með enga meðvitund á spítala. Án þess að geta fengið nokkurt samþykki frá meðvitundalausri konunni kyssir hún hana á munninn og viðurkennir að hafa í kjölfarið fundið fyrir geigvænlegri greddu og langað úr buxunum. Sem í ljósi aðstæðna fær mann síður en svo til að lítast á blikuna gagnvart þeim ráðahag. 

Ótrúverðugur losti og fyrirsjáanlegt plott

Þættirnir keppast  samt við að sannfæra okkur um þennan genetíska sálufélaga en hugmyndin verður, ólíkt í ljóði Vatnsenda-Rósu, aldrei rómantísk. Þessi ungæðingslega gredda og losti gagnvart ókunnugum sem fær meira að segja ástfangið fólk í farsælu sambandi til að gera og segja vafasama hluti er alls ekki trúverðug en á köflum óhugguleg, sem kannski er ætlunin.

Vandinn felst aðalega í að spennan sem þættirnir eiga að byggja á er varðar andlát vinarins sem var svikinn til að koma fyrirtækinu á fót er fyrirsjáanleg og óspennandi, aðalpersónan verður aldrei sympatísk og snúningurinn sem á að koma flatt upp á mann í lokinn bætir engu við neitt sem strax varð ljóst í fyrsta atriði fyrsta þáttar. 

Eins og margar ástarsögur fá mann til að trúa á eina sanna ást, þvert á raunsæislega afstöðu til tilverunnar, þá gera The One hið gagnstæða og fylla mann heldur bölsýni en einlægu þakklæti yfir að slíkt sé líklega bara til í ævintýrum.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Og þá var slegist, reykt og slúðrað í höllinni

Sjónvarp

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar