Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skemma beint streymi frá eldgosinu með stælum

02.04.2021 - 19:07
Mynd: RÚV / RÚV
Nokkuð er um að fólk skemmi beint vefstreymi frá eldgosinu með því að stilla sér upp fyrir framan myndavél RÚV á Fagradalsfjalli. Stofnuð hefur verið Facebook-síða sem gerir grín að þessum óboðnu gestum.

Útsendingin er fyrir þá sem komast ekki að gosinu

Beint streymi frá gosstöðvunum nýtur mikilla vinsælda. Ekki er þó eins vinsælt þegar fólk stillir sér upp fyrir framan myndavél RÚV á Fagradalsfjalli og skemmir fyrir áhorfendum. 

Ætla má að milljónir manna hafi horft á beint vefstreymi RÚV úr Geldingadölum. Vefstreymið er til dæmis sýnt hjá CNN, og norska og danska ríkissjónvarpinu. 

„Við setjum upp þessa vél til þess að hleypa almenningi nær þessu gosi. Þetta er sögulegur tími og sögulegt að geta hleypt almenningi svona nálægt þessu gosi,“ segir Bragi Reynisson yfirmaður tækni hjá RÚV. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvað ungur nemur gamall temur.

Mörgum kemur á óvart að fullorðið fólk stilli sér upp fyrir framan myndavélina, virðist hringja svo í einhvern og vinka svo í myndavélina. 

„Það er þúsundir einstaklinga sem eru að labba þarna upp og þetta er nú bara lítið brot af því fólki sem er að gera sér ferð að þessari vél og stilla sér upp fyrir framan hana.“

Fávitavarpið í Geldingahrauni

Nýlega var stofnuð Facebook síðan Fávitavarpið í Geldingahrauni. Þar eru birt skjáskot af þeim sem skemma hægvarpið frá Geldingadölum. Hent er gaman að fólkinu og jafnvel birtar kersknisvísur um það. 

„Við erum búin að koma fyrir borða fyrir framan vélina. Þetta er gríðarlega stórt svæði sem við þurfum að loka af ef við ætluðum að loka hana algerlega af. Þetta er mikið veðravíti getur verið þarna uppi á Fagradalsfjalli þ.a. við getum ekki heldur hækkað hana eða gert einhverjar aðgerðir. Þannig að við viljum nú bara aðallega höfða til samviskunnar og leyfa fólki frekar að njóta gossins sem situr heima alveg eins og þeirra sem eru þarna á staðnum.“

Manni finnst þetta kannski nokkuð óþroskað að stilla sér svona upp fyrir fram vefmyndavél vitandi að þetta er í beinu streymi?

„Já, í heildina þá held ég að flestir átti sig nú bara ekki á því að þeir séu að skemma fyrir einhverjum öðrum.“

Og ekki má heldur gleyma jarðeðlisfræðingunum sem nýta sér upptökuna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeir sem horfa á streymið þurfa að bíða þolinmóðir þar til þessir hafa lokið sér af.

Klippa á útsendingu ef skyggt er alveg á

Í hádeginu í dag mætti fólk fyrir framan myndavélina með eins konar mótmælaskilti 

„Það er auðvitað þannig að ef það er búið að stilla upp fleka sem hylur algerlega gosið þá er ekkert gos til að sýna frá. Þá auðvitað bara klippum við á annað.“

Eitthvað annað verður sýnt á meðan ekki er hægt að sjá gosið en vitanlega er upptaka alltaf í gangi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svona kúnstir eru örugglega fínar nema ekki á þessum stað.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bragi Reynisson yfirmaður tækni hjá RÚV.