Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Húsið mitt var bara sett í blandarann“

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV

„Húsið mitt var bara sett í blandarann“

02.04.2021 - 09:15

Höfundar

„Þetta er ótrúlega skrítið. Ég er búin að heyra að eitthvað fór út í sjó. Húsið mitt var bara sett í blandarann,“ segir Ingrid Karis, tískuljósmyndari, sem bjó í húsinu Berlín, Hafnargötu 24 á Seyðisfirði, sem stóra aurskriðan hrifsaði með sér fyrir jól. Í þáttunum Fjallið ræður sem er á dagskrá Rásar 2 um páskana segja Seyðfirðingar frá sinni upplifun af skriðunni, sem hjó stórt skarð í byggðina.

Ingrid Karis flutti til Íslands frá Eistlandi fyrir um tuttugu árum og keypti húsið Berlín fyrir rúmu ári síðan, þriggja hæða, rautt, múrhúðað timburhús byggt 1881 með hvítum gluggum. Húsið var hið reisulegasta, stóð hærra í brekkunni en húsin við hliðina á. Þar bjó Ingrid og var í húsinu stuttu áður en skriðan fellur. „Hálftíma áður en allt fór. Ef ég hefði verið í húsinu væri ég ekki hér núna. Það er bara þannig,“ segir hún í útvarpsþættinum Fjallið ræður sem er á dagskrá Rásar 2 um páskana. Í þáttunum er fjallað um hamfarirnar og upplifun Seyðfirðinga af þeim. 

„Og þá var allt farið“

Ingrid var á leiðinni á kvöldvakt en ákvað að fara heim fyrr um daginn og leggja sig fyrir vaktina. „Svo kom löggan á eftir mér og sagði mér að ég mætti ekki vera í húsinu. Ég horfi út um gluggann og sagði: Það er ekkert að fara að gerast hér, þetta lítur bara vel út. Þá sagði hann að það hefðu verið hreyfingar í sprungunum í fjallinu fyrir ofan húsið mitt. Þá tók ég ákvörðun um að taka köttinn minn og bara flýja „beisiklí“ úr húsinu. Svo fór ég til vinar míns og lagði mig, ég var frekar þreytt en vaknaði við lætin. Þetta var hinum megin við bæinn. Það voru mikil læti og ég vaknaði við það. Og þá var allt farið.“

Sér Berlín „splundrast í frumeindir“

Tólf hús fóru með skriðunni, sum enduðu úti í sjó, tveggja hæða hús snérust um 180 gráður. Bílar sem lentu í skriðunni eru flestir brotajárn. Á milli tuttugu og þrjátíu manns voru á svæðinu þegar hún féll. Einn þeirra var Bjarki Borgþórsson, lögreglumaðurinn sem bað Ingrid um að fara úr húsi sínu stuttu áður en skriðan féll. Hann flúði undan skriðunni á hlaupum eins og margir aðrir og sá Berlín fara með skriðunni. „Ég góndi á Berlín af því ég vissi að það hefði verið manneskja þar inni stuttu áður sem ég hafði verið að pexa við. Berlín splundrast í frumeindir,“ segir Bjarki.

Í fyrstu var talið að einhverjir hefðu lent í eða undir skriðunni. Hún féll fimm mínútur yfir þrjú á föstudegi, þegar margir voru á ferli. „Ég var ekki orðinn sannfærður um að Ingrid hefði ekki verið í húsinu fyrr en klukkutíma seinna. Ég náði aldrei beint í hana. Það tók smá tíma að fatta að það hafði enginn lent í þessu,“ segir Bjarki jafnframt.

Ingrid segir að fyrstu dagarnir eftir skriðuna hafi tekið á en húmorinn kemur henni langt. „Ég man fyrstu vikuna dreymdi mig að ég var þarna undir skriðunni. Ég vaknaði miðja nótt og ég var bara dauð. Ég var bara þarna undir og berjast fyrir lífi mínu. Það var svakalegt. Á hverju kvöldi dreymdi mig að ég væri þarna undir,“ segir hún. 

Einn tíundi af eigum Ingridar bjargaðist

Ingrid er ljósmyndari, útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2013 og átti því mikið af ljósmyndum og myndböndum á færanlegum hörðum diskum í húsinu. Hún segir að kannski einn tíundi hafi bjargast af því sem var í húsinu, mest föt en meira að segja verkfæri hafi horfið, sennilega út í sjó. „Ég hef alveg vaknað grátandi. Þetta eru ekki hlutir sem ég er búin að kaupa síðustu ár. Þetta eru hlutir sem ég er búin að safna síðustu tuttugu ár, síðan ég flutti hingað. Meira að segja hlutir sem ég tók með frá Eistlandi.“

Hún segist vera safnari, kaupir mikið af listaverkum eftir upprennandi listamenn og gömul húsgögn. „Ég er ekki mikið fyrir IKEA, segjum það, ekki það að það sé eitthvað rangt við að kaupa úr IKEA. En ég elska meira svona antíkhluti og einstaka hluti, safngripi. Þannig þetta er ekki bara að nú ætli ég að kaupa mér allt nýtt, þetta er ekki þannig. Ég veit þetta eru hlutir og allt það og ég er á lífi.“

Segist þurfa að byrja upp á nýtt

Ingrid á átján ára son sem býr í Reykjavík. „Það þarf enginn að segja stráknum mínum að ég er dauð. Það er það sem skiptir máli. Það er bara þannig,“ segir hún. „En ef ég fer að hugsa og pæla, nú verð ég að byrja aftur upp á nýtt. En svo er líka spurning hvernig byrjar maður aftur upp á nýtt. Ég er ekki alveg búin að taka ákvörðun í því.“

Fjallið ræður er á dagskrá á Rás 2 á skírdag, í dag föstudaginn langa og páskadag klukkan fimm.

Tengdar fréttir

Innlent

„Svæðið verður auðvitað aldrei eins og það var“

Austurland

Húsamyndir Dieters fundnar – safnið óskar hjálparhandar

Menningarefni

„Þetta var rosalega dramatískur atburður“