Gosstöðvarnar lokaðar á morgun vegna vondrar veðurspár

Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka fyrir umferð að gosstöðvunum í Geldingadölum allan daginn á morgun. Ekki verður opnað aftur fyrr en klukkan sex að morgni páskadags. Þetta var ákveðið á grundvelli veðurspár. Veðurstofan spáir vonskuveðri, hvassri suðvestan- og vestanátt með rigningu eða súld og lélegu skyggni á gosstöðvunum. Að sögn Veðurstofunnar verður ekkert ferðaveður við gosstöðvarnar á morgun.

Síðustu daga hefur verið lokað fyrir umferð að gosstöðvunum milli sex á kvöldin og sex á morgnana en hægt að fara að gosstöðvunum yfir daginn. Þegar sú regla var tekin upp var tekið fram að það byggði á því að veður og aðrar aðstæður leyfðu.

Veðurstofa Íslands gaf í dag út gula viðvörun í þremur landshlutum sem taka gildi á morgun. Varað er við suðvestanstormi frá sex í fyrramálið fram á seinnipart dags á Ströndum og Norðurlandi vestra og eystra. Veðurstofan varar við hvassri vestan- og suðvestanátt við Faxaflóa og gildir sú viðvörun frá eitt eftir hádegi til níu annað kvöld.

Fréttatilkynning Lögreglustjórans á Suðurnesjum:

Af öryggisástæðum hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákveðið að loka fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gosstöðvum í Geldingadölum laugardaginn 3. apríl. Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir svæðið en veðurspá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir suðvestan og síðar vestan 15-23 m/s með rigningu eða súld og lélegu skyggni á gosstöðvunum. Alls ekkert ferðaveður.

Umferð sem nauðsynlega þarf að fara um Suðurstrandarveg mun geta farið framhjá lokunum.

Eins og veðurspáin er núna þá gerum við ráð fyrir að opna aftur fyrir umferð að gosstöðvunum á Páskadagsmorgun kl 6:00.