Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjórum vísað frá gosinu - áttu að vera í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Lögreglan vísaði fjórum frá gosstöðvunum í gær sem áttu að vera í sóttkví. Átta hundruð bílar eru á bílastæðum við gönguleiðina og veðrið gott. 

Fylgjast með útlendingum

Um tvö þúsund manns eru í Geldingadölum. Lögreglan hefur strangt eftirlit með að enginn sem á að vera í sóttkví fari inn á svæðið.

„Við erum með sérstakt COVID-eftirlit eins og við köllum það. Við höfðum afskipti í gær af einhverjum tuttugu útlendingum, ferðamönnum, fjórum var vísað frá sem áttu að vera í sóttkví,“ segir Sigurður Bergmann aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og vettvangsstjóri á gosstöðvunum.

Þannig að þegar fólk kemur í bílum sínum þá spyrjið þið það?

„Já og líka höfum við eftirlit með þeim sem koma í rútunum.“

Gott veður og engar alvarlegar hjálparbeiðnir

Hann segir erfitt að meta hve margir eru í Geldingadölum núna en um hálftólf hafi verið 800 bílar á bílastæðunum við upphaf gönguleiðarinnar. Þar er þá pláss fyrir nærri 200 til viðbótar. Auk þess eru tvö fyrirtæki með skipulagðar rútuferðir frá Grindavík frá því snemma á morgnanna og síðasta rútan sækir fólk klukkan tíu á kvöldin. Sigurður giskar á að um tvö þúsund manns séu á svæðinu.

Samkvæmt sjálfvirkri talningu Ferðamálastofu á stikaðri gönguleið í Geldingadali komu þangað tæplega 4100 manns í gær. 

„Það er blíðviðri. Það er hægur andvari, skýjað og hlýtt.“

Hefur eitthvað komið upp á síðasta sólarhringinn, fólk slasast og björgunarsveitir hafi þurft að sækja það og flytja fólk af fjalli?

„Ekkert alvarlegt. Það er alltaf eitthvað um aðstoðarbeiðnir, fólk er náttúrulega að örmagnast og smávægileg göngustígahnjösk eins og maður segir.“