Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Aukin spenna á landamærum Rússlands og Úkraínu

02.04.2021 - 17:14
epa04664776 An activist of the Anti-Maidan movement installs an artwork representing Russian President Vladimir Putin during an outdoor exhibition entitled 'Crimea: Return to Home Port', in Moscow, Russia 16 March 2015. The exposition is devoted
Einarður stuðningsmaður Pútíns og innlimunar Krímskagans kemur upp listaverki á sýningu í Moskvu, sem tileinkuð var innlimuninni undir slagorðinu „Krím - aftur í heimahöfn“ Mynd: EPA
Aukin spenna hefur færst í samskipti Rússlands og Úkraínu eftir að Volodmymir Zelensky, forseti Úkraínu, hélt því fram í gær að rússneski herinn yki nú viðbúnað sinn við landamæri ríkjanna. 

Bandarísk stjórnvöld undirstrikuðu í kjölfarið stuðning sinn við Úkraínu, en ráðamenn í Kreml brugðust við með yfirlýsingu í dag þar sem þeir vöruðu Vesturlönd við að blanda sér í deilu ríkjanna. 

Haft er eftir Dimitry Peskov, talsmanni rússnesku stjórnarinnar, að Rússar þyrftu að grípa til aðgerða ef Bandaríkjamenn myndu stíga inn í. Peskov útlistaði þær aðgerðir ekki frekar, en neitaði að Rússar væru að auka vígbúnað sinn við landamærin. 

Eftir yfirlýsingu Rússa ítrekaði Joe Biden Bandaríkjaforseti stuðning sinn við Úkraínu.

Átök hafa staðið milli úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum, síðan Rússar innlimuðu Krímskaga í apríl 2014.