Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Opnað fyrir umferð að gosstöðvunum á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Opnað var fyrir umferð að gosstöðvunum í Geldingadölum klukkan sex, tólf tímum eftir að hætt var að hleypa fólki inn á svæðið og um sex klukkustundum eftir að rýmingu þess lauk um miðnæturbil í gærkvöld. Á annan tug lögreglumanna og björgunarsveitarfóks stóð vaktina við gosstöðvarnar í nótt og stendur hana enn.

 

Þegar rætt var við vettvangsstjóra lögreglu þar syðra klukkan fjögur í nótt var allt með kyrrum kjörum og hafði verið allt frá miðnætti. Gærdagurinn var nokkuð erilsamur en þó ekkert í líkingu við þriðjudaginn, þegar talið er að yfir 5.000 manns hafi gengið að gosstöðvunum og bílaröðin náði alla leið að Bláa lóninu þegar verst lét.

Nokkur minniháttar óhöpp urðu á svæðinu í gær og aðstoða þurfti nokkra uppgefna göngugarpa síðasta spölinn að bílum sínum og jafnvel til byggða, en ekkert alvarlegt kom upp á.  

Lögregla setti skýrar reglur um aðgengi og minnir á sóttvarnir

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að opnað verði fyrir umferð að gosstöðvunum í Geldingadölum klukkan sex að morgni alla daga fram yfir páska að því gefnu að veður leyfi, segir í tilkynningu sem lögreglustjórinn sendi frá sér í gær.

Með hliðsjón af reynslu síðustu daga verði síðan lokað fyrir alla umferð að gosstöðvum klukkan 18 og jafnvel fyrr ef þess þarf og byrjað að rýma gossvæðið klukkan 22, líkt og gert var í gær.

Engum verður hleypt inn á vegslóða viðbragðsaðila nærri gosstöðvunum nema vísinda- og fréttamönnum, en talsvert hefur verið um utanvegaakstur út frá þessum slóðum frá því að gosið hófst. . 

Í tilkynningu lögreglustjóra er bent á að bannað sé að stöðva og leggja bílum meðfram Grindavíkurvegi eins og gert var í fyrradag og áréttað að fjarstæðukennt sé fyrir flesta að hefja göngu að gosstöðvunum í Grindavík eða þaðan af lengra frá þeim. Ef í óefni stefnir, eins og raunin var á þriðjudag, verður lögreglan með lokunarpósta við vegamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar, og líka við mót Suðurstrandarvegar og Krýsuvíkurvegar. Eins verður lokunarpóstur inn á Krýsuvíkurveg ef umferð virðist ætla að fara út böndunum. 

Þá er í lok tilkynningar vísað í reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar; minnt á að fjöldasamkomur eru óheimilar og að sóttvarnalæknir hvetji fólk til að sitja heima. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV