Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Níu þekktar baráttumanneskjur fyrir lýðræði dæmdar

epa09109830 (FILE) - Protesters holding umbrellas amid heavy rain march in an anti-government rally in Causeway Bay, Hong Kong, China, 18 August 2019 (reissued 01 April 2021). Nine prominent democracy activists were convicted 01 April 2021 on unlawful assembly charges for their role in organizing the massive pro-democracy rally in Hong Kong on 18 August 2019.  EPA-EFE/VIVEK PRAKASH
Á aðra milljón Hong Kong-búa tóku þátt í mótmælunum 18. ágúst 2019 Mynd: EPA-EFE - EPA
Níu þekktir og þrautreyndir andófsmenn í Hong Kong voru í morgun dæmdir fyrir sinn þátt í að skipuleggja og taka þátt í ólöglegum samkomum, þar á meðal einni fjölmennustu mótmælasamkomu í sögu borgarinnar í ágúst 2019. Í hópnum eru bæði karlar og konur. Sjö þeirra voru sakfelld í réttarsal í morgun en tveir höfðu þegar játað sekt sína. Öll níu eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.

Í þessum hópi eru nokkur af þekktustu andlitum lýðræðis- og sjálfstæðisbaráttunnar í Hong Kong. Mörg þeirra hafa jafnan lagt áherslu á það á sínum áratugalanga baráttuferli, segir í frétt AFP, að beita skuli friðsamlegum aðferðum í baráttunni.

Með úrskurðinum í morgun bættust níumenningarnir í ört vaxandi hóp lýðræðis- og sjálfstæðissinna í Hong Kong, sem sakfelldir hafa verið fyrir brot á víðtækri og harðlega gagnrýndri þjóðaröryggislöggjöf sem yfirvöld í borginni innleiddu í fyrra, að undirlagi stjórnvalda í Peking.

Þekkt baráttufólk og lýðræðissinnar

Meðal níumenninganna eru hinn 82 ára lögmaður Martin Lee, sem Peking-stjórnin valdi á sínum tíma til að semja stjórnarskrá Hong Kong, og Margaret Ng, 73 ára lögmaður og fyrrverandi þingkona stjórnarandstöðunnar í borginni.  Fjölmiðlamógúllinn Jimmy Lai er líka í þessum hópi, ásamt nokkrum úr forystu Mannréttindafylkingar Hong Kong, sem skipulagði röð mótmælaaðgerða um margra mánaða skeið árið 2019.

Þar á meðal voru mótmælin 18. ágúst 2019, sem voru einhver fjölmennustu og jafnvel allra fjölmennustu mótmæli í sögu borgarinnar. Skipuleggjendur fullyrtu að um 1,7 milljónir manna - nær fjórðungur Hong Kong-búa - hafi mætt þann dag til að krefjast aukins lýðræðis og rannsóknar og réttarhalda vegna lögregluofbeldis.