Hafinn til skýjanna og rifinn niður í blöðunum

Mynd: Einkasafn / RÚV

Hafinn til skýjanna og rifinn niður í blöðunum

01.04.2021 - 08:00

Höfundar

Það var ekki tekið út með sældinni einni að vera þekkt poppstjarna á Íslandi árið 1969. Björgvin Halldórsson segir að gætt hafi vanþóknunar í umfjöllun um hann í blöðum þegar hann var í broddi fylkingar vinsælustu hljómsveitar landsins. „Núna er einelti á Instagram og Snapchat en þarna var það bara í blöðunum.“

Árið 1969 flaug Björgvin með himinskautum í íslensku tónlistarlífi. Hann hafði sigrað í keppni um vinsælasta söngvara ársins og vinsælustu hljómsveit ársins, með sveitinni Ævintýri, á tónlistarhátíðinni Pop-festival. „Eftir popphátíðina miklu 1969 erum við ofsalega mikið uppi með okkur að hafa unnið allar þessar hljómsveitir í vinsældarkosningu.“

Páll Kristinn Pálsson ræðir við Björgvin Halldórsson í þáttunum Þó líði ár og öld, þar sem litið er yfir farinn veg og rifjuð upp eftirminnileg atriði frá tónlistarferli sem spannar rúmlega hálfa öld.

Hylltir eins og Bítlar á Akureyri

Þá byrjaði ballið, í orðsins fyllstu merkingu, með mikilli spilamennsku út um borg og bæ og víðar. Ævintýri kom fram í Sjallanum á Akureyri, sem skemmtiatriði hjá Ingimar Eydal og hljómsveit, og tók nokkur lög. „Þegar við komum á hótelið, sem hét Varðborg, að þá var svo mikið af krökkum sem vissu að við værum í bænum. Geislagatan, ég lýg því ekki, var full af krökkum. Við fórum út á svalir og veifuðum. Þetta var svona Beatles-móment.“

Björgvin segir að sveitin hafi átt markaðinn á þessum tíma og það hafi verið yfirdrifið nóg að gera. „Ég sem frontmaður í bandi verð ofsalega frægur og þekktur. Það eru símtöl og bréfaskriftir, við Skandinavíu og allt þetta. Þegar ég lít tilbaka, þetta er ofsalega þekkt í sjóvbissness, að þú ert hafinn til skýjanna. Þegar þú ert kominn á hæsta plan, þá er byrjað að rífa þig niður. Það er bara staðreynd.“

„Ég hef ekkert á móti piltinum persónulega en ég er sannfærður um að það er hvorki gott fyrir hann eða aðdáendur hvernig stjarnan er dýrkuð. Táningar trúa á hann sem guð væri. Kannski biðja einhverjir þeirra frekar til goðsins Bjögga en Guðs almáttugs.“

– Norðanfari 1969

Mörgum þótti nóg um stjörnudýrkunina, eins og sjá má í umfjöllun um Björgvin og hljómsveitina Ævintýri í blöðunum. „Þetta var tónninn í mörgum, svona vanþóknun á þessu. Hvaða húllumhæ þetta væri út af drengnum. Þetta væri eitthvað óhollt og illt. Þetta var komið á þetta plan. En maður tók þetta á öxlina.“

Nýr guð á forsíðu Vikunnar

Björgvin segist hafa farið ógætilega í viðtölum og látið ýmis orð falla sem hann hefði ekki viljað sjá á prenti. „Ég var bara með tóman kjaft,“ segir hann. „Ég bara lét allt vaða og það fór náttúrulega misjafnlega ofan í menningarvitana. Þessi drengur er náttúrulega bara vitleysingur, sögðu þeir. Þetta loðaði við mig ofsalega lengi. En ég sem lenti í einelti í barnaskóla er með mjög harðan skráp. Mér líður mjög vel í eigin skinni, það hefur ekkert áhrif á mig.“

Mynd með færslu

Eftirminnilegasta viðtalið birtist í tímaritinu Vikunni árið 1969, sem vinur hans til margra ára, Ómar Valdimarsson, tók. „Ég fór náttúrulega og treysti Ómari. Það kemur ýmislegt hlægilegt fram í þessu viðtali. Hann tekur myndir af mér á Keflavíkurveginum og þar sagði: Hérna situr hann og bíður eftir því að einhver komi aftan að honum og taki af honum krúnuna. Og svo kom forsíðan: Nýi guðinn. Sem ég vissi ekkert af, tóm tjara. Þetta vakti voðalega mikla athygli og það hélt áfram þetta einelti, kalla ég. Núna er einelti á Instagram og Snapchat en þarna var það bara í blöðunum.“

Geggjað að geta hneggjað

Björgvin varð svo skotspónn Flosa Ólafssonar í áramótaskaupinu sama ár. „Hann kom fram í áramótaskaupi og var svona poppstjarna með klút. Hann var náttúrulega alltof feitur og ekkert líkur mér en bjó til lagið Það er svo geggjað að geta hneggjað. Því að stelpurnar fyrir utan Tónabæ sögðu: Hann er geggjaður persónuleiki, hann er æðislegur,“ segir Björgvin. „Þetta fór ekkert í taugarnar á mér. Það fór mest í taugarnar á mér að það voru Biggi Hrafns og Siggi Karls sem spiluðu undir. Þetta er bara „the price of fame“. Þetta eru gjöldin sem þú borgar.“

Eftir þetta fór Björgvin að hugsa sinn gang. „Þegar þetta gerðist fór ég að hugsa, bíddu nú við, það er nokkur ábyrgð sem fylgir þessu. Ég má ekkert vera eins og ég vil og láta eins og fífl. Ég er fyrirmynd hjá mörgum. Þá byrjaði ég að passa mig, í viðtölum, þurfti að lesa þau yfir áður. Ég var mjög harður á þessu og er enn í dag. Mjög erfiður í því.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fyrsta myndin af litlum gutta með upprifið tré í ólátum