Árið 1969 flaug Björgvin með himinskautum í íslensku tónlistarlífi. Hann hafði sigrað í keppni um vinsælasta söngvara ársins og vinsælustu hljómsveit ársins, með sveitinni Ævintýri, á tónlistarhátíðinni Pop-festival. „Eftir popphátíðina miklu 1969 erum við ofsalega mikið uppi með okkur að hafa unnið allar þessar hljómsveitir í vinsældarkosningu.“
Páll Kristinn Pálsson ræðir við Björgvin Halldórsson í þáttunum Þó líði ár og öld, þar sem litið er yfir farinn veg og rifjuð upp eftirminnileg atriði frá tónlistarferli sem spannar rúmlega hálfa öld.
Hylltir eins og Bítlar á Akureyri
Þá byrjaði ballið, í orðsins fyllstu merkingu, með mikilli spilamennsku út um borg og bæ og víðar. Ævintýri kom fram í Sjallanum á Akureyri, sem skemmtiatriði hjá Ingimar Eydal og hljómsveit, og tók nokkur lög. „Þegar við komum á hótelið, sem hét Varðborg, að þá var svo mikið af krökkum sem vissu að við værum í bænum. Geislagatan, ég lýg því ekki, var full af krökkum. Við fórum út á svalir og veifuðum. Þetta var svona Beatles-móment.“
Björgvin segir að sveitin hafi átt markaðinn á þessum tíma og það hafi verið yfirdrifið nóg að gera. „Ég sem frontmaður í bandi verð ofsalega frægur og þekktur. Það eru símtöl og bréfaskriftir, við Skandinavíu og allt þetta. Þegar ég lít tilbaka, þetta er ofsalega þekkt í sjóvbissness, að þú ert hafinn til skýjanna. Þegar þú ert kominn á hæsta plan, þá er byrjað að rífa þig niður. Það er bara staðreynd.“
„Ég hef ekkert á móti piltinum persónulega en ég er sannfærður um að það er hvorki gott fyrir hann eða aðdáendur hvernig stjarnan er dýrkuð. Táningar trúa á hann sem guð væri. Kannski biðja einhverjir þeirra frekar til goðsins Bjögga en Guðs almáttugs.“
– Norðanfari 1969
Mörgum þótti nóg um stjörnudýrkunina, eins og sjá má í umfjöllun um Björgvin og hljómsveitina Ævintýri í blöðunum. „Þetta var tónninn í mörgum, svona vanþóknun á þessu. Hvaða húllumhæ þetta væri út af drengnum. Þetta væri eitthvað óhollt og illt. Þetta var komið á þetta plan. En maður tók þetta á öxlina.“
Nýr guð á forsíðu Vikunnar
Björgvin segist hafa farið ógætilega í viðtölum og látið ýmis orð falla sem hann hefði ekki viljað sjá á prenti. „Ég var bara með tóman kjaft,“ segir hann. „Ég bara lét allt vaða og það fór náttúrulega misjafnlega ofan í menningarvitana. Þessi drengur er náttúrulega bara vitleysingur, sögðu þeir. Þetta loðaði við mig ofsalega lengi. En ég sem lenti í einelti í barnaskóla er með mjög harðan skráp. Mér líður mjög vel í eigin skinni, það hefur ekkert áhrif á mig.“