Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gosáhugafólk mætti fyrir fimm og mátti bíða um stund

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fyrstu gosferðalangar dagsins mættu á bílastæðin við Suðurstrandarveg um fimmleytið í morgun en urðu að bíða í klukkustund áður en þeir fengu að ganga að gosstöðvunum. Nóttin var róleg eftir að svæðið var rýmt í gærkvöld og í dag viðrar vel til gosgöngu, að mati varðstjóra hjá lögreglunni.

Atli Gunnarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum og vettvangsstjóri við gosstöðvarnar í Geldingadal, segir að nóttin hafi verið mjög góð þar syðra og afar róleg. Byrjað var að rýma svæðið um klukkan tíu í gærkvöld og lauk rýmingu á tólfta tímanum. Atli segir engin teljandi ágang fólks hafa verið eftir það fyrr en undir fimm í morgun.

„Fyrstu bílar fóru að mæta hérna rétt fyrir fimm í morgun, og urðu bara að bíða þangað til svæðið var opnað klukkan sex,“ segir Atli, og engar undantekningar voru veittar frá þeirri meginreglu. Þegar rætt var við Atla um klukkan sjö í morgun taldi hann hátt í 100 bíla vera komna á staðinn og óhætt að reikna með 200 - 300 manns í þeim.

Atli sagði veðurspá mjög góða fyrir ferðir að gosinu og reiknar með að það verði nóg að gera fyrir þau sem voru í þann mund að taka við af honum og félögum hans eftir nóttina, þar sem fimm lögreglumenn og um fimmtán björgunarsveitarmenn stóðu vaktina í gærkvöld og nótt. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV