Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Facebook bannar birtingu viðtals við Donald Trump

01.04.2021 - 12:09
epa08953508 U.S. President Donald Trump, left, and U.S. First Lady Melania Trump, arrive to a farewell ceremony at Joint Base Andrews, Maryland, USA, 20 January 2021. US President Donald J. Trump is not attending the Inaugration ceremony of President-elect Joe Biden. Biden won the 03 November 2020 election to become the 46th President of the United States of America.  EPA-EFE/Stefani Reynolds / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg
Tengdadóttir Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, segir facebook hafa fjarlægt viðtal sem hún tók við hann. Trump var bannaður á samfélagsmiðlinum eftir innrásina í þinghúsið Washington í janúar.

Bandaríkjaforsetinn fyrrverandi var bannaður af Facebook, Instragram og Twitter eftir innrásina í þinghúsið í Washington þann 6. janúar. Hæstráðendum hjá samfélagsmiðlunum þótti orðræða Donalds Trump í aðdraganda og kjölfar innrásarinnar ala á sundrungu og hatri. 

Lara Trump, tengdadóttir forsetans fyrrverandi, hóf nýverið störf hjá Fox fréttastöðinni sem dagskrárgerðarkona. Meðal þess sem hún hefur tekið sér fyrir hendur í nýju starfi er að taka viðtal við Donald Trump. Hún deildi viðtalinu á facebook síðu sinni, en segist í kjölfarið hafa fengið póst frá Facebook. Bréfið birtir hún á Instagram síðu sinni þar sem segir að viðtalið hafi verið fjarlægt. Birting þess brjóti í bága við ákvörðun um úthýsingu Donalds Trump á Facebook, verði efni með honum áfram deilt á síðu Löru Trump gæti þurft að grípa til aðgerða þar líka. 

Lara, sem er gift Eric Trump, syni forsetans fyrrverandi, skrifaði í færslu með bréfabirtingunni að aðgerðirnar minntu á söguþráðinn í skáldsögu George Orwells, 1984

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV