Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Einkenni barnanna eru varla merkjanleg“

01.04.2021 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Þrjú börn í Ísaksskóla greindust með COVID-19 í gær og í fyrradag. Smitin eru ekki rakin til skólans, enda hafa börnin ekki mætt í skólann síðustu vikuna. „Einkenni þessara barna voru svo lítil að þau voru varla merkjanleg, þess vegna er svo mikilvægt að vera á varðbergi fyrir minnstu einkennum. Maður er vanur að hrista af sér hor í nos en það gildir ekki núna,“ segir Sigríður Anna Guðjónsdóttir, skólastjóri Ísaksskóla, í samtali við fréttastofu.

Sigríður Anna segist í raun fegin að skólum hafi verið lokað, annars hefðu smitin geta dreifst um skólann. „Fimm ára deildin var reyndar opin þangað til í gær, en þessi þrjú börn sem greindust voru úr eldri bekkjum,“ segir hún. 

Hún bætir við að þótt það sé gott að börnin finni fyrir litlum sem engum einkennum sé það einnig ógnvekjandi: „Svo fara þau milli heimila og geta smitað aðra sem fara verr út úr því,“ segir hún. „En við höfum haft þær reglur í skólanum að hingað kemur enginn með minnstu einkenni eða kvef, ef nemendur eða starfsfólk er með hor í nös mætir það ekki í skólann fyrr en það hefur hrist það af sér.“

Alls eru 34 börn með COVID-19 hér á landi, 25 þeirra undir 12 ára aldri. Börn smitast frekar af breska afbrigði veirunnar, sem nýlega tók að dreifast hér á landi, heldur en fyrri afbrigðum. Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að þó væri mjög sjaldgæft að leggja þyrfti börn með COVID-19 inn á spítala.