Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja RÚV af auglýsingamarkaði í skrefum

31.03.2021 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram lagafrumvarp um að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Þeir vilja að auglýsingasala og birting RÚV verði takmörkuð á næsta og þarnæsta ári og stöðvuð alfarið í ársbyrjun 2024. Frá þeim tíma megi RÚV aðeins sýna tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar séu án greiðslu.

Þingmennirnir segja að samkeppnisstaða einkarekinna miðla sé skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu RÚV á sama tíma og alþjóðleg stórfyrirtæki sæki inn á innlendan auglýsingamarkað.

Óli Björn og Brynjar segja í greinargerð að með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði styrkist staða einkarekinna fjölmiðla. Þeir segja óvarlegt að ætla að allar auglýsingatekjurnar skili sér til einkarekinna fjölmiðla en gera ráð fyrir að þeir fái meira í sinn hlut með þessum hætti en með frumvarpi menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Auglýsinga- og kostanatekjur RÚV námu 1.837 milljónum árið 2019 en styrkur hins opinbera til einkarekinna miðla sem var samþykktur á síðasta ári nam 400 millónum króna. Sá styrkur var veittur á grundvelli efnahagslegra áhrifa COVID en frumvörp menntamálaráðherra um fasta styrki hafa ekki náð fram að ganga.

„Með því að taka Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði auglýsinga í tveimur skrefum gefst stjórn Ríkisútvarpsins tækifæri til að aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum. Sé það talið nauðsynlegt að koma til móts við ríkisfyrirtækið vegna lægri nettótekna hefur fjárveitingavaldið ágætt svigrúm til þess,“ segja þingmennirnir og bæta við: „Flutningsmenn telja með því að Ríkisútvarpið verði dregið út af samkeppnismarkaði auglýsinga og kostunar fái fyrirtækið aukið svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum.“