Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verið að rýma Geldingadal en fjöldi fólks enn á staðnum

Mynd með færslu
 Mynd: Jakob Vegerfors
Mikill fjöldi fólks er enn við gosstöðvarnar í Geldingadölum en lögregla og björgunarsveitir vinna nú að því hörðum höndum að rýma svæðið. Þetta kom fram í samtali við varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum laust fyrir eitt í nótt. Hann segir mjög kalt vera í fjalllendinu við gosstöðvarnar og mörg eiga langa göngu fyrir höndum að bílum sínum eftir að niður er komið.

Lögregla sinnir umferðastjórn á Suðurstrandarvegi, þar sem aragrúa bíla var lagt í dag, og björgunarsveitarfólk aðstoðar fólk eftir þörfum, enda mörg í hópi gosgesta bæði köld og þreytt. 

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, sagðist í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld telja að metaðsókn hafi verið að gosstöðvunum þennan daginn.