Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Töluverð flúormengun í regnvatni við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sérfræðingar frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun fóru um helgina að gosstöðvunum til að mæla flúormengun í úrkomu, tóku sýni úr pollum. Niðurstöður liggja nú fyrir og sýna þær talsverða flúormegnun í regnvatni við gosstöðvarnar, um 80 milligrömm í lítra. Neysluvatnsviðmið er 1 milligramm.

Andri Stefánsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, segir að um tvö tonn af flúorgasi streymi úr gosinu á dag, sem gæti hljómað mikið, en til samanburðar voru það um 40 til 50 tonn á dag í gosinu í Fimmvörðuhálsi.

Hinn sívinsæli veldiskvarði

Hins vegar er að mælast töluverð flúormengun í regnvatninu alveg við gosstöðvarnar. Vatnið er mjög súrt, bæði vegna flúor og saltsýru, með PH gildi undir 3. Eðlilegt PH gildi í regnvatni er 5,5. Andri bendir á að PH-kvarðinn er veldiskvarði, eins og margir Íslendingar ættu nú að kannast við eftir bæði kórónuveirusmitafjölda og styrki jarðskjálfta. Sumsé, PH4 er tíu sinnum meira en PH 5 og þar af leiðandi er PH3 tíu sinnum meira en PH4. 

Ekki drekka úr pollunum við gosstöðvarnar

Flúormagnið í regnvatninu er um 80 milligröm á hvern lítra, en neysluvatnsviðmiðið er eitt milligramm. Andri segir það undir Matvælastofnun og sóttvarnaryfirvöldum komið hvernig leiðbeiningarnar verða, en mælist til þess að fólk sé ekki að drekka úr pollum á svæðinu og ekki leyfa hundum að gera það heldur. Hann undirstrikar að mengunin er bundin við Geldingadali og nálægð við gosstöðvarnar.