Þorsteinn skipaður forstjóri Hafrannsóknastofnunar

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þorsteinn Sigurðsson hefur verið skipaður í embætti forstjóra Hafrannsóknarstofnunar til fimm ára.

Þorsteinn var meðal sex umsækjenda um embættið en hæfisnefnd taldi þrjá úr þeim hópi hæfasta til að gegna embættinu. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra skipaði Þorstein í embættið í kjölfar viðtala þar sem Þorsteinn var metinn hæfastur.

Þorsteinn Sigurðsson er með BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og Cand. Scient gráðu frá Háskólanum í Bergen. Þorsteinn hóf störf sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun árið 1994. Árin 2005 til 2016 starfaði hann sem forstöðumaður nytjastofnasviðs og frá árinu 2016 til 2019 var hann forstöðumaður sviðs uppsjávarlífríkis. Árið 2020 hóf hann störf sem sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, nú skrifstofa sjávarútvegsmála. 

Þorsteinn gerði starfslokasamning við Hafrannsóknarstofnun haustið 2019 þegar 10 starfsmönnum stofnunarinnar var sagt upp störfum. Fljótlega eftir það  var hann ráðinn sem sérfræðingur innan ráðuneytisins eins og fram kemur hér að ofan. Meðal þeirra sex sem sóttu um starfið var Sigurður Guðjónsson núverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar. 

Stundin fjallaði um það fyrir áramót að nokkur styrr hafi staðið um stofnunina vegna laxeldismála og útgáfu loðnukvóta.