Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skólahald með takmörkunum hefst strax eftir páska

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Skólahald á öllum skólastigum hefst að nýju strax eftir páska, með ákveðnum takmörkunum í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi var birt í dag, en hún gildir frá 1. til 15. apríl.

Í leikskólum munu engar fjölda- eða nálægðartakmarkanir gilda um börn á leikskólaaldri. Hámarksfjöldi fullorðinna er 20 manns í rými, en starfsmenn mega fara á milli rýma. Starfsfólk skal virða tveggja metra reglu eða nota grímu. Þá skulu foreldrar og aðstandendur ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til.

Tveggja metra regla eða grímur

Í grunnskólum eru nemendur undanþegnir nálægðartakmörkunum og grímuskyldu. Hámarksfjöldi nemenda í rými er 50, og blöndun á milli hópa innan sama skóla er heimil. Hámarksfjöldi starfsmanna í rými er 20.

Í tónlistarskólum er hámarksfjöldi nemenda í rými 50, miðað við börn á leik- og grunnskólaaldri. Fólk fætt 2004 eða fyrr má að hámarki vera 20 saman í rými.

Í framhaldsskólum er hámarksfjöldi nemenda og starfsmanna í rými 30, og í háskólum er hámarksfjöldi í kennslustofum og lesrýmum 50. Á öllum þessum skólastigum skal virða tveggja metra reglu eða nota grímu.

Hér má lesa fréttatilkynningu ráðuneytisins.