Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Milljónir skammta af bóluefni eyðilögðust fyrir mistök

31.03.2021 - 22:22
Bóluefni Janssen
 Mynd: AP - Ljósmynd
Tafir verða á dreifingu tug milljóna skammta bóluefnis Johnson & Johnson í Bandaríkjunum eftir að um fimmtán milljón skammtar af efninu eyðilögðust fyrir mistök í framleiðsluferlinu.

New York Times greinir frá þessu og því að verksmiðja Emergent BioSolutions þar sem atvikið átti sér stað framleiði einnig bóluefni fyrir AstraZeneca.

Embættismenn Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna rannsaka nú gæðastaðla verksmiðjunnar en talið er fullvíst að mannlegum mistökum megi kenna um.

Vonir hafa staðið til að bóluefni Johnson & Johnson hraðaði bólusetningum vestra enda þarf ekki að gefa nema einn skammt af því. 

Því er málið harla vandræðalegt fyrir bóluefnaframleiðandann sem hefur aukið ítök sín í Emergent BioSolutions til að komast hjá viðlíka atburðum í framtíðinni.

Atvikið hefur ekki áhrif á dreifingu bóluefnis fyrirtækisins sem þegar var hafin í Bandaríkjunum en það eru skammtar sem framleiddir voru í verksmiðju Johnson & Johnson í Hollandi.

Vel gengur að dreifa bóluefni Moderna og Pfizer í Bandaríkjunum. Bóluefni Johnson & Johnson fyrir Evrópu verður framleitt undir merki dótturfélagsins Janssen sem hefur höfuðstöðvar í Belgíu.