Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mega nýta 125 þúsund rúmmetra kalkþörunga úr Djúpinu

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Íslenska kalkþörungafélagið hefur nú fengið leyfi til að vinna kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi. Þetta er einn stærsti áfanginn í því að koma nýrri verksmiðju fyrirtækisins í Súðavík af stað.

Nýtingarleyfið er til þrjátíu ára en samkvæmt því má Íslenska kalkþörungafélagið nýta 125 þúsund rúmmetra af kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi á ári hverju. Verksmiðjan í Súðavík yrði önnur verksmiðja fyrirtækisins sem þegar er með starfsemi á Bíldudal.

„Nýtingaleyfið, eða efnistökuleyfið, það er í rauninni risavaxinn áfangi. Margra ára ferli lokið, umhverfismat, leyfi frá Orkustofnun. Núna getum við farið í næstu skrefin,“ segir Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins.

Við fulla afkastagetu verður á fjórða tug starfsmanna við verksmiðjuna. Það eru kalk- og magnesíumríkar stoðgrindur lithothamnion kalkþörunga sem kalkþörungafélagið sækir á sjávarbotninn og vinnur svo á landi. Þessi tegund kalkþörunga er aðeins unnin á þremur stöðum í heiminum.

Ferlið við að koma verksmiðju kalkþörungafélagsins af stað á Langeyri hefur dregist allverulega. Nú eru liðin sjö ár síðan viljayfirlýsing var fyrst undirrituð. Halldór segist nú binda vonir við að verksmiðjan hefji störf innan næstu þriggja til fimm ára. Nú standi eftir gerð landfyllingar við Langeyri og samningaviðræður við Súðavíkurhrepp. Stærsta hindrunin er þó að tryggja raforku til verksmiðjunnar. Hún þarf tíu megawött á ári, sem er tíu sinnum það sem núverandi aðstæður í Súðavík bjóða upp á.

„Þannig það er annað hvort að leggja streng meðfram veginum af því hér eru engin jarðgöng til að leggja í gegnum, eða fara yfir fjallið þar sem núverandi lína er.“

Þá hafi kalkþörungafélagið einnig bent á Langeyri sem heppilegan stað fyrir nýjan afhendingastað raforku. Komi allt fyrir ekki hyggist fyrirtækið notast við gas til að framleiða rafmagn til starfseminnar.