Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gærdagurinn næststærsti bólusetningardagur frá upphafi

31.03.2021 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Rétt tæplega fimm þúsund manns voru bólusettir við COVID-19 á Íslandi í gær og rétt yfir fimm þúsund manns á föstudaginn. Ekki hafa áður verið bólusettir fleiri en fjögur þúsund manns á einum degi. Nú hafa 49.289 manns fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu og 23.698 eru fullbólusettir.

Nær allir yfir áttræðu eru fullbólusettir og 16 prósent fólks á aldrinum 70-79 ára, og þar að auki hafa nú 52 prósent fólks á þeim aldri fengið fyrri sprautuna. Bólusetning er því hafin hjá 68 prósentum fólks á aldrinum 70-79 ára.

Síðan bóluefni AstraZeneca var aftur tekið í notkun hafa ríflega sjö þúsund manns fengið efnið en á síðustu dögum hefur einnig verið bólusett með bóluefni Pfizers og BioNTech. 

Hlutfall bólusettra er hæst á Austurlandi og Norðurlandi, rúm 16 prósent. Lægst er það á Suðurnesjum, 10,5 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið tæp 12,5 prósent.