Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frumskógi á stærð við Holland eytt í fyrra

epa07822526 A burning tree in an area affected by forest fires in the Amazon, near Apui, Brazil, 05 September 2019 (issued 06 September 2019). According to reports, recent rains have helped firefighting efforts in the region which was affected by blazes that have destroyed thousands of hectares of rainforest.  EPA-EFE/Fernando Bizerra Jr.
Brunninn tréstubbur í Amasonskóginum í Brasilíu. Hvortveggja lögleg og ólögleg skógareyðing af mannavöldum hefur aukist mjög í Amasonskóginum brasilíska í valdatíð forsetans Bolsonaros. Í fyrra bættu svo óvenju miklir gróðureldar gráu ofan í svart.  Mynd: epa
Ósnortinn frumskógur á stærð við Holland var brenndur eða ruddur á síðasta ári og jókst skógareyðing um tólf prósent á milli ára, þrátt fyrir samdrátt í hagkerfum heimsins vegna kórónaveirufaraldursins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Heimsauðlindastofnunarinnar, sjálfstæðrar, alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar á sviði umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt henni eyddu menn ósnortnum frumskógi á um 42.000 ferkílómetrum lands í fyrra.

 

Mest var eyðingin í Brasilíu, þrefalt meiri en í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem skógareyðingin var næst mest. Vistkerfi hitabeltisfrumskóganna í kringum miðbaug geyma mestu tegundafjölbreytni sem fyrirfinnst á jarðríki, jafnt í dýra- sem jurtaríkinu, auk þess sem óhemjumikið af kolefni er bundið í þeim.

Eyddu skóglendi sem samanlagt var stærra en Ísland

Alls var um 122.000 ferkílómetrum skóglendis eytt í hitabeltinu og víðar árið 2020; jafnt frumskógum sem ræktuðum skógum. Til samanburðar, þá er Ísland um 103.000 ferkílómetrar að flatarmáli. Mikinn meirihluta skógareyðingarinnar má rekja til landbúnaðar, segir í skýrslu Heimsauðlindastofnunarinnar, en feiknarmiklir hitar og þurrkar höfðu líka sitt að segja og leiddu til mikilla skógarelda, einkum í Ástralíu, Síberíu og Amasonskóginum í Brasilíu.

„Ég meina, votlendi er farið að brenna“

Þessi mikla skógareyðing eykur enn á yfirstandandi loftslagshamfarir, ógnar tegundafjölbreytni, veldur mannlegri neyð og rænir fólk efnahagslegum tækifærum til framtíðar, sagði Frances Seymour hjá Heimsauðlindastofnuninni þegar hún kynnti skýrsluna.

Og þótt það sé vissulega skelfilegt að horfa upp á mannskepnuna ryðja skóg eins og enginn sé morgundagurinn, sagði Seymour, þá veki það jafnvel enn meiri ugg að fylgjast með aukningu skógar- og gróðureyðingar af völdum loftslagsbreytinga. „Ég meina, votlendi er farið að brenna. Náttúran hefur verið að hvísla að okkur í langan tíma um þessa hættu,“ sagði Seymour á fréttamannafundi í gær. „En nú er hún farin að hrópa."