Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 800 börn hafa smitast af COVID hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm börn greindust með kórónuveirusmit í gær, það yngsta eins árs. Alls hafa hátt í 800 börn veikst af COVID-19 frá upphafi faraldursins hér á landi, flest á unglingsaldri. Barnasmitsjúkdómalæknir segir að einkenni barna geti verið önnur en fullorðinna.

Smit barnanna tengjast öll smitum sem komið hafa upp í grunnskólum í Reykjavík. Núna eru 32 börn með virkt kórónuveirusmit, þar af 15 með breska afbrigði veirunnar að sögn Valtýs Stefánssonar Thors, barnasmitsjúkdómalæknis á Barnaspítala Hringsins.

Tvö eru á leikskólaaldri, 21 barn á aldrinum 6 til 12 ára og 9 börn sem eru 13 til 17 ára. Einkenni hjá börnum geti verið önnur en hjá fullorðnum.

„Það sem kannski helst skilur börn að, fyrir utan að fá venjulega miklu mildari veikindi, er að þau eru líklegri til að fá meltingarfæraeinkenni. Niðurgang og kviðverki heldur en fullorðnir,“ segir Valtýr.

Hann segir tvennum sögum fara af því hvort breska afbrigðið sé skeinuhættara börnum en önnur afbrigði. „Það er ljóst að þetta afbrigði veirunnar sem er kennt við breska afbrigðið hefur betri smithæfni en hin afbrigðin. Og það á þá líka við um börn. Börn eru þá líklegri til þess að smitast. Hvort þau eru líklegri til að verða alvarlega veik er alveg óljóst.“

Frá upphafi faraldursins hafa um 800 börn smitast hér á landi en ekkert þeirra hefur veikst það alvarlega að það hafi þurft að leggjast inn á spítala.

„Við erum bjartsýn um að það verði þannig áfram í þessari bylgju, að börn verði ekki alvarlega veik. en við erum hins vegar alveg við því búin að bregðast við því ef þetta ástand breytist eitthvað,“ segir Valtýr.