Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefnt að því að opna skólana strax eftir páska

30.03.2021 - 08:12
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vonast til þess að það takist að halda kórónuveirufaraldrinum áfram niðri hér á landi næstu daga. Takist það verði hægt að hefja skólastarf að nýju strax eftir páska.

„Ég er að vinna að minnisblaði í samráði við heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið varðandi það hvað tekur við í skólum eftir páska. Ég held að við þurfum endilega að koma þessu af stað og vonumst til þess að faraldurinn haldist bara niðri og að við verðum á góðum stað þannig að við getum haldið áfram að aflétta tiltölulega hratt, þar á meðal í skólunum,“ sagði Þórólfur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Og við munum nýta okkur þá reynslu sem við fengum, sérstaklega í þriðju bylgjunni, og afléttingar sem við gerðum þá í skólunum. Það er bara í smíðum. Og reglugerðin varðandi skólana gildir til 1. apríl. En það eru náttúrulega allir í páskafríi þannig að þetta mun þá koma til framkvæmda strax eftir páskana.“

Þórólfur segir að ekki þurfi að hafa sérstakar áhyggjur af þeim fréttum sem bárust í gær, þess efnis að tvö börn á leikskólaaldri hefðu smitast af COVID-19.

„Þetta eru ekki smit á leikskólum heldur eru þetta tvö börn á leikskólaaldri sem smituðust heima af fjölskyldu sinni, en ekki á leikskólanum.“

Rugla saman hugtökum

Þórólfur segist hafa skilning á þeirri gagnrýni sem fram hefur komið, á þá ákvörðun að loka ekki leikskólum líkt og öðrum skólum.

„Ég skil ósköp vel að það séu áhyggjur en við getum ekkert annað gert en að meta tölurnar og stöðuna, hvernig hún er, og reynt að róa fólk. Fólk hefur verið óánægt með margt sem hefur verið gert alveg fram að þessu, meðal annars innan kennarastéttarinnar alveg frá upphafi. Og í upphafi var líka mikill óróleiki í leikskólum út af því að undanskilja leikskóla. Þannig að það er svo sem ekki nýtt. En við höfum verið að biðla til fólks að skoða gögnin varðandi sóttvarnir og smithættu.“

Þá segir Þórólfur að einhver misskilningur sé á kreiki varðandi skilgreininguna á framlínustarfsfólki.

„Menn eru að rugla saman hugtökum. Þegar við erum að tala um framlínu varðandi bólusetningar, þá erum við að tala um það fólk sem er líklegast til að smitast af veirunni. Og það eru framlínustarfsmenn inni á heilbrigðisstofnunum sérstaklega. Við höfum ekki flokkað fólk í bólusetningar eftir mikilvægi starfa. Það er mjög erfitt að flokka störf, hvaða störf eru mikilvæg og hvaða störf eru ekki mikilvæg. Í þeim skilningi eru allir framlínustarfsmenn, sem eru að vinna mjög nauðsynleg störf í samfélaginu, til að láta samfélagið ganga. En það er ekki það sem við erum að tala um í sambandi við bólusetningar,“ segir Þórólfur.

Hlusta má á viðtalið við hann í Morgunútvarpinu í morgun í spilaranum hér að ofan.