Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkið hleypur undir bagga með Strandabyggð

30.03.2021 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir
Ríkið þarf að hlaupa undir bagga með Strandabyggð svo að það geti haldið úti rekstri og staðið við skuldbindingar sínar. Oddviti sveitarstjórnar Strandabyggðar segir það koma til vegna skerta framlaga úr Jöfnunarsjóði. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og sveitarstjórn Strandabyggðar undirrituðu í dag samkomulag um aðkomu ríkisins að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins.

Í byrjun mars fór sveitarstjórn Strandabyggðar þess á leit við ráðuneytið að það kæmi að fjármálum sveitarfélagsins. Í skýrslu KPMG frá því í fyrra kom fram að venjubundinn rekstur stæði ekki undir skuldbindingum sveitarfélagsins og verulegur halli væri fyrirséður á rekstri þess.

Gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar lengur

Í samkomulaginu felst að sveitarfélagið fái 30 milljónir króna úr Jöfnunarsjóði til að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga.  Jón  Gísli Jónsson er oddviti sveitarstjórnar. 

„Það er bara vegna bágrar fjárhagsstöðu hjá sveitarfélaginu sem kemur að hluta til vegna lækkandi framlaga úr Jöfnunarsjóði. Svo eru rekstraraðstæður bara erfiðar líka hjá sveitarfélögum almennt,“ segir Jón Gísli.

Hagrætt í rekstri og stefnt að auknum tekjum

Óháður ráðgjafi verður ráðinn til að vinna með sveitarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins. Þá á að hagræða í rekstri og draga úr útgjöldum, auk þess sem leitast verður við að auka tekjur. Jón segir íbúa óneitanlega finna fyrir samdrættinum.

„Við getum ekki farið nema ákveðið langt í þeim efnum. Við getum ekki dregið úr þjónustu nema ákveðið mikið“ 

Heldurðu að þeir komi til með að finna fyrir þessu?

Að einhverju leiti já,“ 

Óttastu að þetta geti leitt til þess að fólk flytji úr sveitarfélaginu?

Maður óttast alltaf að einhverjir flytji í burtu úr sveitarfélaginu í þessum minni  sveitarfélögum gera menn það yfirleitt,“ segir Jón Gísli.

Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á kostum sameiningar við önnur sveitarfélög og fjárhagsleg áhrif sameiningar.