Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðuneytið segir varnaðarorð byggð á misskilningi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Skattrannsóknarstjóri varar við að rannsókn refsiverðra skattalagabrota verði flutt til héraðssaksóknara og óttast að það leiði meðal annars til endurtekinna rannsókna. Fjármálaráðuneytið andmælir þessu í umsögn, vill að breytingarnar nái fram að ganga og álítur að skattrannsóknarstjóri misskilji frumvarpið.

Ef frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra, sem færir rannsókn á meiriháttar skattrannsóknum til héraðssaksóknara, verður að lögum verður núverandi embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins að sérstakri einingu innan Skattsins.

Þar verði farið með rannsókn þeirra skattalagabrota sem ljúka má innan skattkerfisins. Embætti Skattrannsóknarstjóra telur þá ráðstöfun að færa stærri rannsóknir til héraðssaksóknara ganga gegn yfirlýstum tilgangi frumvarpsins, sem er að koma í veg fyrir tvöfalda málsmeðferð og tvöfalda refsingu.

Eins geti sérfræðiþekking tapast og þannig verði meiri skaði en gagn af breytingunni. Héraðssaksóknari þurfi að koma sér upp sérhæfðu starfsliði til viðbótar því sem starfi hjá Skattrannsóknarstjóra, sem vart þjóni æskilegri hagræðingu og skilvirkni í ríkisrekstri, eins og segir í umsögn embættisins um frumvarpið.

Í athugasemd ráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins segir að aðfinnslur skattrannsóknarstjóra byggi á misskilningi. Til að mynda skuli gripið til sektarákvarðana fyrr í málsmeðferð skattrannsóknarstjóra til að tryggja að komið verði í veg fyrir tvöfalda málsmeðferð.

Ráðuneytið telur hugsanlegt að hækka megi fjárhæðarmark frumvarpsins, sem nú er 100 milljónir króna til að auka enn möguleika embættisins til að Ijúka málum á stjórnsýslustigi með sektum.

Þannig myndu fleiri mál eiga undir skattrannsóknarstjóra og færri mál færu þá í refsimeðferð hjá héraðssaksóknara, að því er segir í umsögn ráðuneytisins.

„Þungi mála mun liggja hjá Skattinum, verði frumvarpið að lögum, en stærstu og alvarlegustu málin hjá héraðssaksóknara.“ 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV