Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast frekari uppgang íslamista

30.03.2021 - 22:07
epa09104702 People await the arrival of more ships from Palma district with people fleeing attacks by rebel groups, in Pemba, Mozambique, 29 March 2021. Survivors of the 24 March attacks carried out by Islamist militants in Palma, northern Mozambique are to arrive on boats in Pemba.  EPA-EFE/LUIS MIGUEL FONSECA
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Yfirtaka herskárra íslamista á borginni Palma í Mósambík gefur til kynna að þeim sé að vaxa fiskur um hrygg. Þeir tengjast hryðjuverkasamtökum sem kenna sig við Íslamskt ríki. Mannaréttindasamtökin Human Rights Watch óttast frekari árásir í sunnanverðri Afríku.

Árásirnar hófust á miðvikudag og hafa alls verið 570 samkvæmt mannréttindasamtökum. Þau segja að hópur herskárra íslamista sem kallar sig al-Shabaab - ótengdur sómölskum samtökum með sama nafni - standi að árásunum. Þeir hafi alls myrt yfir 2000 manns í Mósambík síðan í október 2017.

Á mánudag tilkynnti hópurinn að hann hefði náð borginni Palma á sitt vald. Þar búa um 70 þúsund manns en hún stendur aðeins örfáum kílómetrum frá aðalgasframleiðslu landsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa skráð hátt í 3.400 manns í borginni heimilislausa, en óttast er að það séu í raun mun fleiri. 

Fjöldi íbúa Palma hefur komist frá borginni við illan leik og flúið til nágrannaborgarinnar Pemba. „Þetta var afar erfitt. Þetta var fjöldamorð. Ekkert okkar vill fara aftur. Margt fólk dó þarna,“ segir Nelson Matola, íbúi í borginni.

Merina Simao var að tala við manninn sinn sem vinnur hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og var við störf í borginni. „Við heyrðum byssuskot meðan við töluðum saman í síma, hann var á leiðinni á markaðinn en svo heyrði ég skothríðina og símasambandið datt út svo ég gat ekki talað við hann.“

Alþjóðasamtök hafa fordæmt árásirnar. „Það sem hefur gerst í Palma er algjör hryllingur sem bitnar á almennum borgurum vegna aðgerða óháðra vígasveita. Sveitirnar hafa unnið mikil ódæði og gera það enn,“ segir Jens Laerke, talsmaður mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Human Rights Watch hefur miklar áhyggjur af framhaldinu. „Nú þarf alþjóðasamfélagið að taka saman höndum til að tryggja að bundinn verði endi á þetta. Annars er mikil hætta á að ofbeldið breiðist hratt út til annarra landa í suðurhluta Afríku,“ segir Dewa Mavhinga umdæmisstjóri samtakanna í suðurhluta Afríku.

Bandaríkjamenn hafa heitið aðstoð, en ekki sagt í hvaða formi hún verður. Þá hafa Portúgalar boðað að sendar verði hersveitir þaðan til landsins, en það var áður portúgölsk nýlenda.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV