Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mesta lækkun leiguverðs frá upphafi mælinga

30.03.2021 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,5 prósent milli janúar og febrúar og er það mesta lækkun sem mælst hefur milli mánaða síðan í maí á síðasta ári. Þegar horft er til tólf mánaða þróunar sést að leiguverð hefur lækkað um 3,2 prósent sem er mesta lækkun sem hefur sést á því tímabili frá upphafi mælinga Landsbankans. Á sama tíma hefur kaupverð fjölbýlis hækkað. Þetta kemur fram í nýrru hagsjá bankans.

„Vextir á íbúðalánum hafa lækkað sem hefur auðveldað mörgum kaup og ef til vill minnkað eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Á sama tíma hefur framboð af leiguhúsnæði aukist, bæði vegna fækkunar ferðamanna og þar með Airbnb íbúða, en einnig vegna þess að áhersla hefur verið mikil hjá stjórnvöldum að auka framboð leiguíbúða til tekjulægri leigjenda,“ segir í hagsjánni.

Þó er líklegt að þessi þróun breytist. „Það er líklegt að talsverður fjöldi íbúða fari aftur í útleigu til ferðamanna þegar faraldrinum linnir og ferðalög geta hafist af krafti að nýju. Einnig er viðbúið að fólksflutningar verði meiri hingað til lands þegar uppgangur verður meiri í atvinnulífinu og því líklegt að spenna aukist að nýju á leigumarkaði.“