Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kanye West verður ekki tákn Vesturbæjar

epa07519057 US rapper Kanye West performs as a surprise guest of Kid Cudi during the Coachella Valley Music and Arts Festival in Indio near Palm Spring, California, USA, late 20 April 2019. The festival runs from 12 to 21 April 2019  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert verður af því að stytta af bandaríska tónlistarmanninum Kanye West verði sett upp við Vesturbæjarlaug. Aron Kristinn Jónasson lagði þá hugmynd inn í hugmyndasamkeppninni Hverfið mitt í janúar.

Hátt í sjöhundruð manns studdu hugmyndina um að styttan yrði reist en Aron Kristinn er þungorður í garð Reykjavíkurborgar í færslu á Twitter þar sem hann greinir frá niðurstöðunni og segir opna lýðræðið hafa brugðist.

Í tilkynningu sem Aron deilir segir að fagteymi verkefnisins þyki hugmyndin ekki tæk, hún hafi hvorki listrænt gildi né sé hún listræn áskorun eins og hún liggur fyrir. Brjóstmyndir séu orðnar harla fátíðar á 21. öld.

Þegar listaverk séu reist í borgarlandinu sé horft til þess að um höfundarverk listamanns sé að ræða og að fleiri en einn listamaður skuli fá tækifæri til að spreyta sig.

Tengsl Kanye West við Vesturbæinn í Reykjavík felist aðeins í nafni hans og því sé ekki ástæða til þess, án frekari rökstuðnings, að stytta sem þessi verði menningarlegt tákn vesturbæjarins eða jafnvel Íslands.

Ýmis lögfræðileg álitamál á borð við friðhelgi einkalífs geti einnig spilað inn í. Næsta skref sé að velja þær hugmyndir sem kosið verði um í hverju hverfi.