Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Glapræði að opna landið og taka upp litakóðunarkerfi

30.03.2021 - 20:03
Mynd: RÚV / RÚV
Gylfi Zoëga,hagfræðiprófessor segir glapræði að taka upp litakóðunarkerfi við landamærin 1. maí líkt og stjórnvöld hafa boðað. Hann býst við að stýrivextir Seðlabankans hækki á næstunni.

Rætt var við Gylfa í Kastljósi í kvöld. Hann segir að vel hafi tekist að standa vörð um stærstan hluta hagkerfisins í gegnum faraldurinn. 

„Stóra myndin er sú að 90 prósent af hagkerfinu eru í lagi og kaupmáttur hefur aldrei verið meiri. Svo eru hér atvinnugreinar sem hafa aldrei gengið betur, verslun með föt og annað sem Íslendingar eru vanir að fara til útlanda. Núna kaupa þeir innanlands,“ segir Gylfi.

Ekki tímabært að opna 1.maí

Ferðaþjónustan nær yfir þau 10 prósent sem út af standa í hagkerfinu segir Gylfi, en hún hefur verið í frosti í rúmt ár. Hann segir að á meðan farsóttin geisar í nágrannalöndunum sé of snemmt að opna fyrir ferðalög í ríkari mæli en nú er. 

„Ég hef alltaf sagt, verndum 90 prósent hagkerfið því það er svo hrikalegur skaði sem verður af því að hér sé farsótt innanlands, efnahagslegur skaði af henni er miklu meiri. Við björgum ekki 10 prósent hagkerfinu með því að hleypa pestinni inn í landið. Það er bara einhver hilling,“

Ert þá að segja að til dæmis þessi áform stjórnvalda að opna landið 1. maí með þessu litakóðunarkerfi, að það sé bara glapræði?

Já mér finnst að það ætti að gera áætlun sem hugsar um heildarhagsmuni, ekki bara eina atvinnugrein. Reynir að varðveita þetta sumar sem ferðasumar fyrir Íslendinga. Hver Íslendingur eyðir mjög miklu í samanburði við erlenda ferðamenn. Svo er hægt að bæta við einhverjum öruggum, bólusettum útlendingum sem fara í próf eða eitthvað slíkt ofan á. En ekki taka sénsinn með að missa bæði innlenda ferðaþjónustu og hitt,“ segir Gylfi. 

Á von á því að vextir hækki frekar en hitt

Gylfi á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Hann segir aðgerðir stjórnvalda hafa borið árangur með því að reka ríkissjóð með halla, auka eftirspurn og bjarga öflugum fyrirtækjum. Verðbólga mælist um 4,3 prósent og stýrivextir eru 0,75 prósent. Gylfi segir það geta breyst á næstunni.

„Persónulega held ég að núna þegar bóluefnið fer að lækna farsóttina, eftirspurnin fer að vaxa þá getum við frekar búist við hærri vöxtum en lægri. En það fer allt eftir ástandi mála á hverjum tíma, hvernig verðbólga þróast og atvinnuleysi og svo framvegis. “