Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farþegar með bólusetningarvottorð skulu fara í sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Þeim farþegum sem koma til landsins frá og með 1. apríl næstkomandi og framvísa bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu ber að fara í eina sýnatöku. Þeim ber þó ekki að dvelja í sóttkví en skulu bíða niðurstöðu úr sýnatöku á dvalarstað sínum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um aðgerðir á landamærunum. Ríkisstjórninni var kynnt innihald reglugerðarinnar á ríkisstjórnarfundi í dag, en hún byggir á tillögum sóttvarnalæknis.

Krafan um sýnatöku bólusettra er sett vegna vísbendinga um að viðkomandi geti borið smit. Krafan er tímabundin og verður endurskoðuð fyrir 1. maí.

Þeim sem hingað ferðast er ætlað að forskrá fyrir komuna hvenær til stendur að hverfa af landi brott og þau sem hingað koma frá skilgreindum áhættusvæðum þurfa að dvelja í sóttkví eða einangrun milli fyrri og síðari sýnatöku.

Ef dvalartími er skemmri en nemur áskildum tíma í sóttkví verður það kannað sérstaklega, enda þyki þá hætt við að viðkomandi muni ekki fylgja reglum um sóttkví.

Tekið verður til við að innheimta 10 þúsund króna gjald af ferðamönnum fyrir hverja nótt í sóttvarnarhúsi frá 11. apríl. Gjaldið er fyrir hvert herbergi og gildir einu hvort einn eða fleiri sem ferðast saman dvelja þar og er fæði innifalið. 

Börnum sem fædd eru árið 2005 eða síðar ber að fara í sýnatöku á landamærunum. Sé barn á ferð með einhverjum þeim sem sæta skal sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt.

Sé samferðamaðurinn undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.

Öllum sem hingað koma frá skilgreindum áhættusvæðum er gert að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

Þarna er átt við við ferðamenn frá löndum eða landsvæðum þar sem fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500, það eru svökölluð dökkrauð svæði.

Þetta á einnig við um ef fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir, eða grá svæði, samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu. Áætlað er að listinn verði næst uppfærður 9. apríl nk.

Vakni minnsti grunur um að framvísað hafi verið fölsuðu vottorði verður sá grunaði skyldaður í tvöfalda sýnatöku með sóttkví á milli í sóttvarnahúsi.