„Ég get staðfest að þessi samskipti eru ekki til“

Mynd: RÚV/Youtube / Samsett mynd

„Ég get staðfest að þessi samskipti eru ekki til“

30.03.2021 - 13:56

Höfundar

Twitter logaði um helgina í kjölfarið á óvæntu orðaskaki á milli Bassa Maraj, rappara og áhrifavalds úr sjónvarpsþáttunum Æði, og Hannesar Hólmsteins sem blandaði sér inn í samræður á milli þess fyrrnefnda og Bjarna Ben fjármálaráðherra. Bassi hótaði að birta meint samskipti sín við Hannes á stefnumótamiðlinum Grindr. Leikstjóri þáttanna segir að það hafi verið augljóst grín og að engin slík samskipti hafi raunverulega átt sér stað.

Jóhann Kristófer Stefánsson er leikstjóri sjónvarpsþáttanna Æði sem eru sýndir á Stöð 2 og hafa slegið í gegn, ekki síst hjá yngri kynslóðinni. Segja má að frægð þeirra hafi vaxið fiskur um hrygg eftir atburði helgarinnar því auk þess sem Bassi vakti umdeilda kátínu á Twitter var stjarna þáttanna, Patrekur Jaime, líka gestur í Vikunni með Gísla Marteini á föstudag. Jóhann talaði um Æði, þríeykið Bassa, Binna og Patta, og eldana á Twitter í Lestinni á Rás 1.

„Ekkert af þessu er leikið“

Jóhann segir að þrátt fyrir grunsemdir ýmissa aðila um annað þá séu strákarnir þrír, Patrekur Jaime, Binni Glee og Bassi Maraj, ekki með neitt handrit í höndum við tökur þáttanna heldur séu einlægir í því sem þeir segi og geri. „Við höfum aldrei og munum aldrei setja handrit fyrir framan strákana um hvað þeir eigi að segja, en þeir eru sjálfir með áætlanir.“

Í fyrstu seríu ber hæst að Patrekur er að flytja í bæinn frá Akureyri og á leið til Chile að hitta blóðföður sinn sem hann hefur ekki séð í mörg ár. Í annarri seríu er Bassi að láta drauminn rætast um að gerast rappari, en fyrsta lag hans Bassi Maraj er eitt það vinsælasta á landinu í dag. „Það sem við sem pródúsentar og ég sem leikstjóri gerum er að setja þá í aðstæður þar sem þeir geta blómstrað.“

Það atriði sem sló einna helst í gegn í annarri seríu voru samræður á milli Patta og Binna þar sem þeir viðruðu stjórnmálaskoðanir sínar hvor við annan. Þá kvaðst Binni vera stuðningsmaður Vinstri Grænna því hann væri örvhentur og að grænn væri uppáhaldsliturinn hans. Margir vildu meina að senan hlyti að vera leikin en Jóhann þvertekur fyrir það. „Ekkert af þessu er leikið og ef eitthvað er þurfa strákarnir stundum að skrúfa niður í sér. Þeir eru bara bókstaflega engum líkir, þeir tala opinskátt og skafa ekkert af hlutunum.“

Strákarnir eru þeir sjálfir og drullusama hvað öðrum finnst

Hugmyndin um að gera raunveruleikaþátt um Patrek kom fyrst frá Patreki sjálfum og þegar Jóhann fékk veður af því setti hann sig í samband við samfélagsmiðlastjörnuna og lagði til samstarf sem hann þáði. „Ég er mjög þakklátur Patta að hafa opnað þessar dyr, það eru ekkert allir sem geta þetta. Hann er að tala um mjög persónulega hluti í sínu lífi sem eru heldur betur raunverulegir og hafa áhrif á hann sem manneskju,“ segir Jóhann. „Þessir strákar eru bara þeir sjálfir. Þeir eru ýktir og þeim er drullusama hvað ykkur finnst um það.“

„Hvernig væri að redda mér reikning í Panama?“

Fjaðrafokið á Twitter um helgina hófst þegar Bassi kvaðst í stöðuuppfærslu vera svo hugmyndaríkur að hann ætti að koma með hugmyndir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni Ben sá statusinn og skrifaði í athugasemd að allar hugmyndir væru vel þegnar. Fæstir áttu von á viðbrögðum Bassa og allt ætlaði um koll að keyra. Hann vitnar þar meðal annars í einn af sínum eftirlætis tónlistarmönnum, Nicki Minaj, þegar hann skrifar þetta:

Bassi gerir það sem honum sýnist

Jóhann segir að ekkert að því sem fram fór hafi komið frá sér eða aðstandendum þáttarins heldur væri Bassi einn við stjórnvölinn. „Þetta er ekki kóreógrafað. Ég er bara vinur Bassa og hef verið að hjálpa honum að koma af stað þessum tónlistarferli og ég er til staðar fyrir hann, en það er engin leið fyrir neinn að temja Bassa. Hann gerir bara nákvæmlega það sem honum sýnist.“

„Bassi rekur sokkinn ofan í fjármálaráðherra“

Hann bendir á að Bassi sé nýorðinn frægur rétt um tvítugur drengur og að það hafi líklega legið fyrir Bjarna, þegar hann gerði sína athugasemd, að taka þátt í hæpinu í kringum rapparann og nýja lagið hans, mögulega með kosningar í haust í huga og mikilvægi þess að höfða til unga fólksins. Það hafi hins vegar ekki gengið eins og áætlað var. „Bassi bara rekur sokkinn ofan í hann. Og ég held að öllum hafi bara fundist þetta fullkomið,“ segir Jóhann. „Hann bara rekur sokkinn ofan í fjármálaráðherra Íslands. Þetta eru aðstæður sem enginn gæti séð fyrir eða málað upp.“

Sem fyrr segir ákvað Hannes Hólmsteinn Gissurarson að blanda sér í málið og hann svarar athugasemd Bassa með því að segja:

Hannes Hólmsteinn stökk fyrir byssukúluna

Jóhann segir að þar hafi Hannes Hólmsteinn stokkið fyrir byssukúluna, „líkt og enginn annar getur gert jafn vel. Prófessor í háskólanum og einn besti vinur valdamesta manns Íslandssögunnar fer einhvern veginn að segja við einhvern ungling að hann viti ekkert um hagvöxt og ætlaði að feisa hann,“ segir Jóhann. Bassi svaraði Hannesi fullum hálsi í umdeildri athugasemd sem nú hefur verið eytt af Twitter. Þar segir Bassi:

„Jés­us hann­es hver hleypti þér á Twitter og áður en þú ferð að rífa þig þá á ég ss af grindr spjall­inu okk­ar.“

„Þetta var grín“

Sumir hafa sakað Bassa um að beita ofbeldi með því að hóta að birta meint samskipti við Hannes á stefnumótaforritinu Grindr en aðrir benda á að hér sé um augljóst grín að ræða og ljóst að samskiptin hafi aldrei átt sér stað. Það tekur leikstjórinn undir. „Ég get staðfest að þetta var grín og þessi samskipti eru ekki til,“ segir Jóhann ákveðinn.

Þeim sem hafa reynt að halda því fram við Jóhann að Bassi sé hér sekur um ofbeldi svarar hann: „Æ, ég hef ekki tíma til að ræða þetta. Mér finnst Bassi bara ógeðslega fyndinn og skemmtilegur og miklu betri birtingarmynd yfir það sem við viljum vera en þessir áðurnefndu menn.“

Getum lært meira af Æði en lærðum greinum eftir Hannes Hólmstein

Þriðja sería af Æði er núna í smíðum, Jóhann er vongóður um að hún verði sýnd í haust og hann mælir með áhorfi. „Ég tel að við getum lært miklu meira um einstaklinginn og lífið, ástina og sorgina, á því að horfa á Æði en að lesa einhverjar lærðar greinar eftir Hannes Hólmstein eða skoða Bjarna Ben á Twitter,“ segir Jóhann. Það stendur ekki til að fjalla mikið um Twitter-samskipti Bassa, Bjarna og Hannesar í nýju seríunni. „Ég veit ekki hvort ég vilji gefa þessum áðurnefndu mönnum eitthvað meira pláss en þeir hafa fengið í gegnum tíðina,“ segir Jóhann sem segir að til standi að fjalla um eitthvað uppbyggilegra en það sem megi til dæmis lesa um í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Jóhann Kristófer í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó