Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

900 börn á biðlista og allt að þriggja ára bið

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Börn þurfa að bíða í allt að þrjú ár eftir tíma hjá talmeinafræðingi. Dæmi eru um að 900 börn séu á biðlista eftir tíma. Formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi segir að of fáir talmeinafræðingar séu að störfum og að ákvæði í rammasamningi hamli nýliðun í stéttinni.

Fjölmörg börn eiga erfitt með mál, tal og tjáskipti. Talmeinafræðingar vinna við að greina vandamálin, og þjálfa börn þannig að þau nái betra valdi á tali og tjáskiptum. En biðlistar eftir tíma hjá talmeinafræðingum eru mjög langir. Kristín Theódóra Þórarinsdóttir er formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi.

„Það virðist vera þannig núna að börn þurfi að bíða frá 17 og upp í 36 mánuði samkvæmt athugun sem var gerð fyrir stuttu. Þetta er gríðarlega langur tími,“ segir Kristín.

Og hvað eru þá mörg börn á biðlistum?

„Við höfum dæmi um að það séu 900 börn á biðlista á einni stofu. Þannig að þetta er gríðarlegur fjöldi sem er að bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga.“

Dauf eyru

Kristín segir að það sé mjög slæmt fyrir börnin að þurfa að bíða svo lengi eftir þjónustu, og að það geti skert lífsgæði þeirra til muna. Þá geti þessi staða verið íþyngjandi bæði fyrir menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Kristín segir að of fáir talmeinafræðingar séu starfandi. Núverandi rammasamningur hamli nýliðun í stéttinni, og þá sérstaklega eitt ákvæði í þeim.

„Þetta er tveggja ára ákvæði sem kveður á um það að talmeinafræðingar þurfi að afla sér tveggja ára starfsreynslu til þess að geta farið á rammasamning og sinnt börnum á stofum, þeim börnum sem þurfa virkilega á þjónustu að halda. Þetta eru börn sem eru með alvarleg málþroskafrávik og það eru þessi börn sem eru að bíða í þennan langa tíma. Og við viljum bregðast við því.“

Hafið þið vakið athygli stjórnvalda á þessum vanda?

„Já við höfum gert það. Við höfum sent minnisblað til heilbrigðisráðherra til dæmis, og kynnt honum þetta vandamál. En við tölum svolítið fyrir daufum eyrum og finnst það miður að stjórnvöld hafi ekki skilning á þessu vandamáli. Við teljum að það þurfi að bregðast við þessu sem fyrst,“ segir Kristín.