Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þingsályktunartillaga um Arnarholt og önnur heimili

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Velferðarnefnd Alþingis ætlar að skila Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á Arnarholti og öðrum sambærilegum heimilum. Formaður nefndarinnar segir að í rannsókninni verði einnig að skoða aðbúnað fólks á hvers kyns vistheimilum nú á dögum. Nefndarmenn hafi fengið ábendingar um slæman aðbúnað fatlaðs fólks og geðfatlaðra í nútímanum.

Í nóvember greindi fréttastofa RÚV frá slæmum aðbúnaði og ómannúðlegri meðferð sem fólk á vistheimilinu Arnarholti varð fyrir á árunum í kringum 1970. Fréttastofa birti þá gögn sem aldrei höfðu komið fyrir sjónir almennings áður. 

Eftir þá umfjöllun hefur rannsókn á málinu verið í burðarliðnum, og hefur málið meðal annars verið tekið fyrir í borgarstjórn, borgarráði, forsætisráðuneytinu og hjá Velferðarnefnd Alþingis. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, segir að nú hafi verið tekin ákvörðun um næstu skref í málinu.

„Fljótlega eftir að við fengum það inn á borð til okkar áttuðum við okkur á því að þetta einangrast ekki við Arnarholt. Við fengum áskorun bæði frá Þroskahjálp og  Geðhjálp, um að hefja rannsókn á aðbúnaði og meðferð á  þroskaskertum og geðfötluðum einstaklingum sem hafa dvalið á stofnunum á vegum ríkisins og sveitarfélaga,“ segir Helga Vala. „Við höfum verið að vinna þetta og óskuðum eftir að fá minnisblað frá forsætisráðuneytinu og lagaskrifstofu, varðandi það hvað er best að gera. Og erum núna búin að taka ákvörðun um að senda Alþingi skýrslu um þá vinnu sem við höfum verið í, og jafnframt þingsályktunartillögu um að farið verði í rannsókn á þessum málum.“

Velta við hverjum steini

Helga Vala segir mikilvægt að rannsóknin nái ekki aðeins til Arnarholts, heldur einnig til annarra heimila.

„Eftir að Arnarholts-málið kom fram í dagsljósið, þá fengum við öll fjölda tilkynninga og ábendinga frá fólki og aðstandendum allt fram í nútímann, á hinum og þessum stöðum. Og þá áttuðum við okkur á því að við erum ekki bara að horfa á fortíðina, heldur þurfum við ekki síður að horfa til dagsins í dag, hvað er að gerast í þessum málum núna. Og þetta er yfirgripsmeira en þetta eina heimili.“

Þannig að þetta gæti orðið ansi umfangsmikil rannsókn?

„Já. Og þess vegna þarf í byrjun að afmarka rannsóknina, því annars getur þetta tekið einhverja áratugi. Og við viljum fá einhverja lausn núna og við viljum að velt sé við hverjum steini, sérstaklega í nútímanum, hvað er að gerast þarna inni. En við þurfum að byrja á að afmarka þetta verkefni og svo ráðast í rannsóknina sjálfa.“

Var einhugur um það í nefndinni að fara þessa leið?

„Já. Það var það. Við erum öll á sömu blaðsíðu með það enda hefur þetta ekkert með flokkspólitík að gera.“

Veistu hvenær þið ljúkið þessari vinnu?

„Við ætlum að klára að smíða þessa afurð núna í þessu hléi sem er á þinginu, viku fyrir og eftir páska, og vonandi náum við að skila þinginu þessu fljótlega eftir það,“ segir Helga Vala.