Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telja áhættu ekki hafa aukist í fjármálakerfinu

29.03.2021 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Seðlabankinn
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki, sem eru viðbótarkröfur á eigið fé fyrirtækjanna, óbreyttum í núlli. Að mati nefndarinnar eru ekki komin fram skýr merki um aukningu í sveiflutengdri kerfisáhættu, það er áhættu sem safnast upp yfir tíma í fjármálakerfinu, og þá telur nefndin að enn ríki nokkur óvissa um gæði útlánasafna fjármálafyrirtækja vegna áhrifa farsóttarinnar.

Tilgangur sveiflujöfnunaraukans er að minnka líkur á að fjármálafyrirtæki dragi um of út lánveitingum þegar illa árar. Með því að halda sveiflujöfnunaraukanum í núlli eru bankarnir betur í stakk búnir til að bregðast við mögulegu útlánatapi. Gildi sveiflujöfnunaraukans er endurskoðað ársfjórðungslega.

Kröfu um aukann var aflétt fyrir ári þegar óvissa um þróun vanskila og virðisrýrnunar jókst í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar. „Svigrúm viðskiptabankanna til að viðhalda útlánum samhliða endurskipulagningu lánasafna rýmkaði umtalsvert við það. Líkur eru á að aflétting sveiflujöfnunarauka hafi átt þátt í að viðhalda aðgengi heimilda og margra fyrirtækja að lánsfé,“ segir í minnisblaði Seðlabankans um ákvörðunina.

„Gæta þarf þess að sveiflutengd kerfisáhætta aukist ekki úr hófi þegar efnahagslífið tekur við sér á ný, svo sem með óhóflegum skuldavexti og ósjálfbærri hækkun eignaverðs. Mikilvægt er því að fylgjast vel með fjármálasveiflunni, eignaverði, skuldsetningu og tengdum stærðum og hækka sveiflujöfnunaraukann á ný ef sveiflutengd kerfisáhætta eykst,“ segir í minnisblaðinu.