
Teikn á lofti um að gosið laði að sér erlenda ferðamenn
Mikill áhugi og umfjöllun erlendis um eldgosið í Geldingadölum hefur ekki enn skilað fleiri ferðamönnum til landsins að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.
Skarphéðinn Berg segir teikn vera á lofti um að Bandaríkjamenn sýni ferðum til Íslands áhuga en að Bretar stígi varlegar til jarðar. „Stjórnvöld þar í landi vara enn við ferðalögum út fyrir landsteinana.“
„Bólusettum og þeim sem hafa fengið COVID-19 fer óðum fjölgandi,“ segir Skarphéðinn.
Hann kveðst þess fullviss að gosið gæti orðið verðmætt við endurreisn ferðaþjónustunnar. Jafnvel þótt hætti að gjósa gæti nýja hraunið orðið aðdráttarafl enda hafi ferðaþjónustuaðilar og landeigendur á svæðinu sammælst um að draga fólk að svæðinu.
Jóhannes Þór kveðst sjá að mikill áhugi sé fyrir Íslandi og mikil umfjöllun um gosið í erlendum miðlum. „Það er ekki ennþa farið að birtast í aukningu bókana en áhuginn gæti bent til að gosið gæti hjálpað til við bókanir inn í sumarið.“
Hann segir að fólk haldi enn að sér höndum varðandi ferðalög meðan staðan í faraldrinum er eins og hún er. „Ferðaþráin er fyrir hendi en ferðaviljinn, það er að panta ferðir, er ekki kominn af stað ennþá.“
Jóhannes býst því ekki við að ferðamenn komi hingað að einhverju marki fyrr en undir lok júní eða byrjun júlí en segir þó vonir þó uppi um að fyrr glæðist. Hann telur að sú ákvörðun að hleypa fólki með vottorð inn frá svæðum utan Schengen gæti fjölgað ferðamönnum til dæmis frá Bandaríkjunum.