Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórhuga geitabændur á Brúnastöðum í Fljótum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Það er handagangur í öskjunni á bænum Brúnastöðum í Fljótum þar sem geitburði er rétt að ljúka. Sextíu geitur verða mjólkaðar þar í sumar fyrir ostaframleiðslu og áætlað er að fjölga mjólkandi geitum enn frekar.

Það er að verða mánuður síðan fyrsta geitin bar hjá Jóhannesi og Stefaníu á Brúnastöðum, mánuði seinna en í fyrra. Geiturnar hafa þetta allt öðruvísi en kindurnar sem bera mun seinna.

Von á 80-90 kiðlingum

„Já, það eru svona frjálsari ástir hjá geitunum. Þær fara að beiða fyrr og við höfum ekkert verið að stjórna þessu neitt mikið. En þær vilja bera á þessum tíma, segir Jóhannes Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum. Um 60 huðnur bera að þessu sinni og von er á 80-90 kiðlingum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjörugir kiðlingar á Brúnastöðum

„Afskaplega mannelsk og sækja í mannfólkið“

Það er sannarlega handagangur í öskjunni enda kiðlingarnir mjög fjörugir. „Sérstaklega þegar kiðin eru orðin svona mánaðar gömlu þá verða þau alveg sérstaklega skemmtileg og mannelsk. Og svona munurinn á þeim og lömbunum að þau hnappa sér mikið saman og eru lítið háð mæðrum sínum. En afskaplega mannelsk og sækja í mannfólkið.“

Geitur við mjólkurframleiðslu og í ferðaþjónustu

Fyrir þá sem ekki vita þá kallast kvengeitin huðna og karlinn hafur. Og kiðnna á Brúnastöðum bíða ýmis verkefni. Huðnurnar verða meðal annars aldar til mjólkurframleiðslu og svo eru jafnan kiðlingar í dýragarði sem opninn er á bænum yfir sumartímanna.

Stefnan sett á allt að 120 mjólkandi geitur

Það stefnir í aukinn geitabúskap hjá Brúnastaðabændum sem gerðu í fyrrasumar tilraun með að framleiða geitaost. Hann varð mjög vinsæll og seldist vel. „Já, í sumar verða mjólkaðar í kringum 60 geitur og stefnan er sett á svona 100 til 120 geitur að minnsta kosti, segir Stefanía Hjördís Leifsdóttir, bóndi. „Þannig að við erum bara stórhuga og stefnum á fjölgun.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV