Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Slökkvilið kallað út vegna sprengingar á Grundartanga

29.03.2021 - 01:48
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Slökkviliðsmenn úr Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar verða á vaktinni við verksmiðju Elkem á Grundartanga fram á morgun. Útkall barst um ellefuleytið í gærkvöld vegna sprengingar í verksmiðjunni.

Betur fór en á horfðist, því enginn eldur var laus þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn, engin slys urðu á fólki eða skemmdir á búnaði, að sögn Jens Heiðars Ragnarssonar, slökkviliðsstjóra. Í samtali við fréttastofu segir Jens að ákveðið viðbragð fari alltaf í gang þegar útkall berst í slíkum tilfellum. Allar stöðvar utan ein voru kallaðar til baka, og verður einn mannaður dælubíll á vaktinni við verksmiðjunni fram til morguns.

Uppfært kl. 8:36 - Upphaflega var sagt að sprengingin hafi orðið í verksmiðju Norðuráls. Það hefur verið leiðrétt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV