Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sextíu ár liðin frá setningu laga um launajöfnuð kynja

Startup Stock Photos

Fólk fundar við viðarborð.
 Mynd: Stocksnap.io
Með lögum sem Alþingi samþykkti 27. mars 1961, fyrir sextíu árum, var ákveðið að konum og körlum skyldi greiða sömu laun fyrir sömu störf. Þriggja manna launajafnaðarnefnd skyldi ákveða launahækkanir uns fullum jöfnuði yrði náð að sex árum liðnum.

Flutningsmenn frumvarpsins voru Alþýðuflokksþingmennirnir Jón Þorsteinsson, Eggert G. Þorsteinsson og Friðjón Skarphéðinsson. Sá síðastnefndi hafði meðal annars verið félagsmálaráðherra í minnihlutastjórn Emils Jónssonar 1958 til 1959.

Samkvæmt ákvæðum laganna skyldu laun kvenna hækka til jafns við laun karla en ætlunin var að fullum launajöfnuði yrði náð 1. janúar 1967. Stéttarfélögum kvenna var þó ekki bannað að semja við vinnuveitendur um að ná þeirri niðurstöðu fyrr.

Í greinargerð með frumvarpi laganna sagði að hægt væri að skýra launamuninn með meira líkamlegu atgervi karla, enda fengju þeir sem ynnu störf sem krefðust slíks atgervis hærra kaup en almennt gerðist.

Jafnframt var talið að launamismunurinn væri meiri en svo, að hann yrði réttlættur með mismun á afköstum og hæfni. Sterkustu rökin voru þau að mati flutningsmanna að það væri jafnkostnaðarsamt fyrir konur og karla að lifa á Íslandi en auðsýnt væri að löggjöf þyrfi til svo tryggja mætti jöfn laun.

Í greinargerðinni kom einnig fram að of flókið þætti að fylgja reglu um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf í jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem Ísland hafði þó fullgilt.

Sú leið gæti skapað deilur en þess í stað væri regla um sömu laun fyrir sömu störf lögð til grundvallar. Fimmtán árum síðar, árið 1976, voru jafnréttislög samþykkt þar sem kveðið var á um að konur og karlar skyldu fá sömu laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Ísland var á síðasta ári efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti ellefta árið í röð.

Á vef Hagstofunnar var þó greint frá því fyrr á þessu ári að óleiðréttur launamunur kynjanna hafi mælst 14% árið 2019 en verið 13,6% árið 2018 og hafði þá lækkað um 1,4 prósentustig frá fyrra ári.

Óleiðréttur launamunur hefur farið lækkandi frá árinu 2008. Munurinn, árið 2019, var mestur í aldurshópnum 55 til 64 ára en minnstur meðal 24 ára og yngri eða 1,9%.

Mikill munur var jafnframt á launamun eftir atvinnugreinum og starfsstéttum. Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er óleiðréttur launamunur  reiknaður sem mismunur á meðaltímakaupi, reglulegum launum auk yfirvinnu, karla annars vegar og kvenna hins vegar sem hlutfall af meðaltímakaupi karla.