
Sérfræðingar rýna í jarðskjálfta á Þrengslasvæðinu
Böðvar kveður alls óvíst enn hvaða þýðingu skjálftavirknin hafi en hún virðist hvorki tengjast niðurdælingum eða námuvinnslu á svæðinu. Skjálftavirkni hófst við Þrengsli aðfaranótt föstudags en Böðvar segir skjálftana eiga upptök sín á þriggja til sex kílómetra dýpi.
Að jafnaði sé ekki mikil skjálftavirkni nákvæmlega þar sem þeir urðu. Ekkert óvanalegt sé þó við að jörð skjálfi á þessu landsvæði. Annars segir Böðvar allt við það sama á gosstöðvunum og tiltölulega rólegt á öllum vígstöðvum, eins og er.
Í frétt RÚV í gær kom fram að Vísindaráð almannavarna telji enn líkur á því að skjálfti af stærðinni allt að 6,5 ríði yfir í Brennisteinsfjöllum. Á þeim slóðum hafi byggst upp spenna undanfarin ár sem gosið í Geldingadölum hafi ekkert náð að létta á.