Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Salóme Katrín - Water

Mynd: Salóme Katrín / Water

Salóme Katrín - Water

29.03.2021 - 15:40

Höfundar

Söngkonan Salóme Katrín er fædd og uppalin á Ísafirði og hefur lagt stund á tónlist frá unga aldri. Salóme hóf að flytja eigin tónlist fyrir almenning árið 2019 og sendi frá sér sína fyrstu þröngskífu, Water í nóvember síðastliðnum. Síðan þá hefur Salóme Katrín fengið tilnefningu sem nýliði ársins á íslensku tónlistarverðlaununum.

Salóme Katrín samdi lögin fimm á WATER á Ísafirði og í Reykjavík árin 2017 til 2019 og tók þau upp í Hafnarfirði og í Reykjavík í fyrra og hittiðfyrra í samstarfi við Baldvin Hlynsson, sem útsetti einnig nokkur laganna. Hljóðblöndun og tónjöfnun plötunnar annaðist Magnús Árni Øder Kristinsson. Salóme syngur og leikur á slaghörpu, en einnig koma við sögu fjölmargir gestir er fremja listir sínar á strengjahljóðfæri, blásturs- og slagverk.

Eins og fyrr sagði er Salóme Katrín 25 ára gömul og frá Ísafirði. Tónlistin hefur átt huga hennar allan og að eigin sögn eyddi hún dögunum í plássinu í að stúdera og rannsaka tónlist af öllum gerðum. Hún segir áhrifavalda sína vera fjölbreytt tónskáld og tónlistarfólk, allt frá Erik Satie og Ninu Simone til Kendrick og Kate Bush, ásamt mörgum fleiri.

Þröngskífan Water er plata vikunnar á Rás 2 og verður flutt í heild sinni eftir tíufréttir í kvöld, auk þess að vera aðgengileg í spilara ásamt kynningum Salóme Katrínar.