Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðið frá að taka lítil börn og hunda með sér að gosinu

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum brýnir fyrir þeim sem ætla að ganga að gosstöðvunum í Geldingadölum að taka ekki lítil börn með sér á svæðið. Það sé erfitt yfirferðar og eins þurfi að hafa mögulega gasmengun í huga.

Eins ber að forðast að taka hunda með sér því þeim stafar meiri hætta af mengun enda öndunafæri þeirra nær jörðu. Sömuleiðis getur flúor leynst í pollum sem hundar gætu lapið úr.

Ennfremur er lagt að ferðalöngum að klæða sig vel, strigaskór eru afar óhentugur fótabúnaður eins og aðstæður eru nú en fólki er ráðlagt að taka með sér mannbrodda vegna hálku á leiðinni.

Jafnramt skal fólk gæta að fjarlægðarmörkum og hafa með sér andlitsgrímur og sprittbrúsa á svæðið.

Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því er öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið. Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni. 

Í dag leggur mengunina til suðurs og suðsuðvesturs frá gosinu og þá ekki yfir byggð. Veðurstöð Veðurstofunnar við gosstöðvarnar sýnir athuganir á klukkustundar fresti.

Gas getur safnast fyrir í dalnum í hægviðri, undir fimm metrum á sekúndu, sem veldur því að það getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar allt umhverfis gasstöðvarnar. 

Á vef Umhverfisstofnunar má sjá ráðleggingar vegna mengunar frá gosstöðvum stöðu á loftgæðum í byggð.

Þegar þannig háttar til er best að færa sig úr brekkunum ofan við gosið og upp á fjöll og hryggi. Þá er biðlað til göngufólks að það hefji göngu frá eldstöðvunum niður á þjóðveg tímanlega fyrir miðnætti en þá verður svæðið rýmt.

Lögregla verður með stöðvunarpóst á Suðurstrandarvegi austan við Grindavík. Þar verða allir stöðvaðir og athugað sérstaklega með ferðamenn vegna sóttvarnareglna.

Suðurstrandarvegi verður lokað klukkan níu í kvöld eða fyrr ef aðstæður breytast til hins verra á svæðinu og akandi og gangandi verður vísað frá eftir þann tíma. 

Stefnt er að því að halda svæðinu opnu næstu daga á tímabilinu frá 9 að morgni til klukkan 21 á kvöldin, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum.