Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fetar í fótspor forfeðranna

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Fetar í fótspor forfeðranna

29.03.2021 - 07:30

Höfundar

„Ég ólst auðvitað upp við að elta kindur hérna upp um öll fjöll og fór átján ára með fyrsta Ferðafélagshópinn og við gistum þá í tjöldum undir Illakambi, það voru ekki komnir neinir skálar. Þannig að það má segja að núna séu um fjörtíu ár frá fyrsta launaða verkefninu sem leiðsögumaður,“ segir Gunnlaugur B. Ólafsson, framhaldsskólakennari og leiðsögumaður.

Landinn hitti Gunnlaug sem er frá Stafafelli í Lóni, einni landmestu jörð Íslands, og hefur haldið tryggð við sína heimasveit. Hann hefur unnið að því síðustu ár að byggja upp gönguleiðir í Stafafelli og stefnir að því að tengja saman Lón og Fljótsdal með gönguleiðinni Austurstræti.

„Þessi áhugi kemur svolítið með móðurmjólkinni. Langafi minn var síðasti prestur í Stafafelli og kaupir jörðina. Hann hafði mikinn áhuga á að leiðin yfir í Fljótsdal yrði bætt og afi minn fór hérna 1930, með Maríu Markan, í fyrstu skipulögðu gönguferðina,“ segir Gunnlaugur.